Körfubolti

Harden og félagar enn með | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harden leggur boltann í körfuna.
Harden leggur boltann í körfuna. vísir/getty
Houston Rockets hélt sér á lífi í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar í NBA með 13 stiga sigri, 128-115, á Golden State Warriors í fjórða leik liðanna í nótt.

Leikmenn Houston komu ákveðnir til leiks og skoruðu hvorki fleiri né færri en 45 stig í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 45-22, Houston í vil.

Houston-liðar voru sjóðheitir fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum og hittu úr 53,1% skota sinna þaðan. Alls voru skoraðar 37 þriggja stiga körfur í leiknum sem er met í úrslitakeppninni.

Golden State komst aldrei yfir í leiknum en náði að minnka muninn í átta stig þegar tvær mínútur voru eftir. En James Harden slökkti vonarneista Stríðsmannanna með þriggja stiga körfu.

Harden átti magnaðan leik í nótt og skoraði 45 stig sem er persónulegt met hjá honum í úrslitakeppninni. Harden tók einnig níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Josh Smith gerði 20 stig og Trevor Ariza 17. Þá skilaði Dwight Howard 14 stigum og 12 fráköstum.

Klay THompson var stigahæstur í liði Golden State með 24 stig. Stephen Curry gerði 23 og Draymond Green skoraði 21 stig og tók 15 fráköst.

Staðan í einvígi liðanna er 3-1, Golden State í vil, en þau mætast í fimmta sinn aðfaranótt fimmtudags.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×