Fótbolti

Hannes vonast eftir því að ná næsta leik

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson er að aðlagast lífinu í Aserbaísjan eftir að hafa gengið til liðs við Qarabag. Hann var að sóla sig á sundlaugarbakka þegar Bítið á Bylgjunni heyrði í honum í morgun.

„Það er bara sól og sumar og sólstrandarfílingur í dag,“ sagði Hannes sem á frídag í dag.

Hannes hefur verið að glíma við meiðsli og er hægt og rólega að komast af stað með nýja liðinu.

„Ég er svona að skríða af stað. Ég þarf samt alltaf að mæta á æfingar þó ég taki kannski ekki fullan þátt eins og hinir þá mæti ég og geri það sem ég get með sjúkraþjálfaranum.“

„Í gær þá var ég í fyrsta skipti með á markmannsæfingu svo ég er að nálgast það að geta byrjað aftur af fullum krafti.“

Deildin í Aserbaísjan er ekki farin af stað en Qarabag er byrjað að leika í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Félagar Hannesar unnu ungverska liðið Olimpija Ljubljana í fyrstu umferð og mætir Kukesi frá Albaníu í næstu umferð.

Hannes vonast eftir því að geta tekið þátt í einvíginu við Kukesi.

„Næsta leikur er á miðvikudag og ég vona að ég verði klár í hann en það er ekki víst enn þá. Ég er að skríða af stað og það er spurning hvort menn ákveði að henda mér út í það eða taka öruggu leiðina,“ sagði Hannes Þór Halldórsson.

Spjallið við hann í heild sinni má heyra í sjónvarpsglugganum með fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×