Viðskipti innlent

Hannes Smárason fyrir dóm á morgun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hannes Smárason er ákærður fyrir fjárdrátt. Meint brot átti sér stað þegar hann var stjórnarformaður FL Group.
Hannes Smárason er ákærður fyrir fjárdrátt. Meint brot átti sér stað þegar hann var stjórnarformaður FL Group. Vísir/Heiða
Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn Hannesi Smárasyni, fyrrum stjórnarformanns og forstjóra FL Group, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi í mars í fyrra en Hæstiréttur sneri þeim dómi við.

Hannes er ákærður fyrir fjárdrátt. Málið snýst um 2,87 milljarða króna millifærslu sem fór út af reikningi FL Group og inn á reikning Fons eignarhaldsfélags þann 25. apríl 2005. Hannes var á þessum tíma stjórnarformaður FL Group en aðaleigandi Fons var Pálmi Haraldsson.

Átján manns eru á vitnalista ákæruvaldsins. Pálmi er þar á meðal og þrír fyrrum stjórnarmenn FL Group sem sögðu sig úr stjórninni í lok júní 2005 þar sem þeir töldu Hannes ekki hafa nægjanlegt samráð við stjórn fyrirtækisins, meðal annars hvað varðaði fjárfestingar.

Einn af þessum stjórnarmönnum er Inga Jóna Þórðardóttir sem mun gefa símaskýrslu fyrir dómi á morgun. Um afsögn hennar úr stjórninni er fjallað í siðfræðikafla Rannsóknarskýrslu Alþingis. Þar segir meðal annars um Ingu Jónu og afsögn hennar:

„Þá hefði henni borist til eyrna að stjórnarformaður (innsk.blm. Hannes Smárason) stæði í ýmsum hlutum sem forstjórinn (innsk.blm. Ragnhildur Geirsdóttir) vissi ekki af. Í samtali hennar við forstjóra hefði komið fram að fjármunir hefðu horfið af reikningum félagsins í Kaupþingi í Lúxemborg. Í nokkra mánuði vantaði þessar upphæðir og þær skiluðu sér ekki fyrr en forstjóri hótaði Kaupþingi að fara með málið til lögreglu.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×