Fótbolti

Hannes í botnbaráttuna í þýsku C-deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes leikur í 3. deild í Þýskalandi út leiktíðina.
Hannes leikur í 3. deild í Þýskalandi út leiktíðina. mynd/heimasíða sandnes ulf
Knattspyrnumaðurinn Hannes Þ. Sigurðsson er genginn í raðir þýska liðsins SSV Jahn Regensburg sem leikur í þriðju efstu deild í Þýskalandi. Samningurinn gildir út leiktíðina.

Regensburg veitir ekki af liðsstyrk en liðið vermir botnsæti C-deildarinnar, sex stigum frá öruggu sæti. Regensburg vann 3-0 sigur á B-liði Borussia Dortmund í gær en fyrir þann leik hafði liðið tapað sex leikjum í röð.

Hannes, sem er 31 árs gamall, hefur komið víða við á ferlinum en hann var síðast á mála hjá Sandnes Ulf í Noregi. Framherjinn, sem er alinn upp hjá FH, hefur einnig leikið í Austurríki, Svíþjóð, Kasakstan, Noregi, Englandi og Rússlandi.

Hannes lék á sínum tíma 13 landsleiki fyrir Íslands hönd og skoraði eitt mark. Þá skoraði hann sjö mörk í 14 leikjum fyrir U-21 árs landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×