Körfubolti

Hannes: Þarf að lækka þennan fæðis- og ferðakostnað

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Kostnaðurinn í Dominos-deild karla á síðasta ári var 85.000 krónur á leikinn í deildarkeppninni og 117.000 krónur í úrslitakeppninni. Heildardómarakostnaðurinn var 14 milljónir.“

Þetta segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við ArnarBjörnsson, en eins og Fréttablaðið greindi frá í dag vilja forráðamenn félaganna í landinu lækka dómarakostnaðinn, meðal annars til að standa undir kostnaði af heimaleikjum.

„Ég held að menn geti staðið undir þessu, en við þurfum að finna leið til að gera það. Þetta er bara einn hluti af partur af mörgum hjá okkur. Þetta er eitt af því sem þú býrð við þegar þú ert með íþróttina um allt landið,“ segir Hannes.

„Ferða- og fæðiskostnaður er eitthvað sem er öllum íþróttafélögum mikill baggi - sérstaklega á landsbyggðinni. Þarna verða menn að reyna að standa saman og reyna að finna lausn til þess að lækka þessa tölu.“

Dómarakostnaðurinn er eitthvað sem knattspyrnufélögin þurfa ekki að hafa áhyggjur af því KSÍ borgar hann.

„Við erum ekki svo heppin. Það er líka eitt okkar helsta baráttumál - að vinna með Alþjóðlega sambandinu okkar. Stundum fáum við 0 krónur og stundum 2-3 milljónir.“

„Þetta er flóknara í körfuboltanum hvað varðar hvernig peningarnir skila sér inn í hreyfinguna. Ef við tökum Meistaradeild Evrópu í fótbolta sem dæmi þá er hún hjá UEFA. Á meðan að helsti gullkálfurinn í körfunni, NBA, er rekið af einkaaðilum og kemur ekki nálægt Alþjóða sérsambandinu. Sama með Meistaradeild Evrópu í körfubolta. Hún er líka í eigu einkaaðila. En það er okkar baráttumál að fá meiri pening þaðan,“ segir Hannes.

Í heildina eru allir sáttir við launakostnað dómarannna í körfuboltanum, en það eru gjöld fyrir ferðir og fæði sem félögin ráða ekki við.

„Í rauninni má segja að allir séu sammála um að sú tala sé eitthvað sem er ásættanleg. Það er þessi ferða- og fæðiskostnaður sem verið er að reyna að lækka. Við höfum lækkað hann með því að semja við bílaleiguna Hertz. En við erum að vinna í þessu áfram.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×