Fótbolti

Hannes: Maður er að upplifa nýjar tilfinningar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes átti góðan leik í marki Íslands.
Hannes átti góðan leik í marki Íslands. vísir/epa
Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska liðsins, var að vonum kátur eftir að Ísland sló England úr leik í 16-liða úrslitum EM 2016 í kvöld.

„Ég veit ekki hvað maður á að segja eftir svona leik. Þetta er svo stórt og epískt og maður er að upplifa nýjar tilfinningar,“ sagði Hannes í samtali við Pétur Marteinsson í Sjónvarpi Símans.

„Hvenær fengum við trúna? Ef ég tala fyrir sjálfan mig er það alltaf þegar það eru komnar 75 mínútur á klukkuna. Þá sér maður glitta í þetta,“ sagði Hannes.

Markvörðurinn byrjaði leikinn illa og fékk á sig víti strax eftir fjögurra mínútna leik. Wayne Rooney skoraði úr vítinu en aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Ragnar Sigurðsson metin.

Á 18. mínútu kom Kolbeinn Sigþórsson Íslandi svo yfir með sínu 21. landsliðsmarki. Englendingar sóttu meira það sem eftir lifði leiks en komust lítt áleiðis gegn íslensku vörninni.

„Við erum mjög góðir í þessu, að halda forystu. Ég sagði eftir Ungverjaleikinn að það væri eiginlega í eina skiptið þessi síðustu fjögur ár sem við höfum spilað saman sem okkur hefur ekki tekist að halda forystu. Það er því ástæða til bjartsýni þegar það er farið að líða á leikina,“ sagði Hannes.

„Nú höldum við bara áfram og ég er smá spenntur að sjá viðbrögðin á netinu, og heima og úti í heimi. Þetta er risafrétt og ég geri ráð fyrir að það sé allt á hvolfi heima.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×