Lífið

Hanna Rún og Nikita flytja til Þýskalands: „Hræðilegt að dansa á Íslandi“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hanna Rún og Vladimir í hafsjó af bikurum.
Hanna Rún og Vladimir í hafsjó af bikurum. mynd/hanna rún
„Mögulega hefðum við þurft að fara aðeins fyrr út en það er erfitt að fara frá fjölskyldunni,“ segir dansarinn Hanna Rún Bazev Óladóttir en hún og eiginmaður hennar, Nikita Bazev, eru að flytja til Þýskalands. „Upphaflega ætluðum við til Ameríku en skiptum um skoðun í raun bara fyrir rúmri viku.“

„Það er hræðilegt að dansa á Íslandi. Af því við erum í landsliðinu fáum við styrki til þátttöku á Evrópu- og Heimsmeistaramótum. Styrkurinn fyrir HM var ekki hár og fyrir EM fengum við 15.000 á haus. Það nægir varla fyrir mat í fríhöfninni, hvað þá flugmiða.“

Dansarar frá öðrum löndum fái margir hverjir milljónir í ár í styrki frá samböndunum sínum og einhverjir aki um á bílum sem reknir eru af þeim. Að auki fá þeir bónusgreiðslur ef þeir ná góðum árangri. „Hérna fær maður í mesta lagi klapp á bakið.“

Hanna Rún deilir á Facebook mynd af sér og syni þeirra hjóna, Vladimir Óla, þar sem þau eru að setja verðlaunasafnið niður í kassa. Vladimir er tíu mánaða gamall. „Hann er svo vær og mikill dundari. Frá fæðingu hefur hann komið með okkur á æfingar og er orðinn ótrúlega vanur hárri tónlist og að hafa marga í kringum sig.“

Hanna og Nikita fara út úr íbúðinni sinni hér á landi um mánaðarmótin og verja júnímánuði í Rússlandi hjá foreldrum Nikita. Í júlí er stefnan tekin á annað hvort Rastatt eða Karlsruhe.

„Við förum út í lok maí og skoðum átta íbúðir. Ein þeirra verður heimili okkar. Þetta eru rólegar og fjölskylduvænar borgir og stutt í danskennarana okkar og æfingahúsnæðið. Svo eru öll stórmót á næstunni í akstursfjarlægð þannig þetta er bara sæla,“ segir Hanna Rún.


Tengdar fréttir

Dansmömmurnar sökuðu Hönnu Rún um að sofa hjá dómurunum

Hanna Rún Bazev Óladóttir fékk slæma útreið í kjölfar Ísland Got Talent á sunnudag. Hún er ekki alls kostar óvön skítkastinu og hefur barist við Gróu á Leiti síðan hún var barn. Hanna horfir út fyrir landsteinana í átt að tækifærum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×