Lífið

Hann var grípandi um brjóstin á mér eða rassinn

Dr. Guðrún Jónsdóttir stígur fram og lýsir kynferðislegri áreitni sem hún varð fyrir í borgarstjórn.

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Á þessum tíma vorum við búin að vera að ræða öldrunarþjónustu í Reykjavík og hvernig mætti bæta hana. En þeir neituðu að hlýða á okkur þótt málefnið væri gott. Það var vegna þessarar fréttar. Nú lægju þeir allir undir grun, segir Guðrún um það þegar hún vakti máls á kynferðislegri áreitni í borgarstjórn áður en hún lauk afskiptum sínum af stjórnmálum. Visir/Ernir
Guðrún Jónsdóttir fagnaði 86 ára afmæli síðasta sumar, hún býr á Selfossi og hefur fylgst með nýlegum byltingum kvenna gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi.

„Mér finnst þetta meiriháttar gott framtak hjá öllum þessum stúlkum. Loksins er komin hreyfing á þessi mál. Hér heima og erlendis. Ég vona að það verði ekki settur hlemmurinn á þetta aftur. Það er nauðsynlegt að halda umræðunni lifandi,“ segir Guðrún.

„Það hafa áður orðið byltingar. Konur koma fram og segja frá. Svo kemur löng þögn. Tímabil þar sem ekkert gerist. Ég vona að það verði ekki í þetta sinn. Það er svolítið á okkar ábyrgð að láta þessi mál ekki hverfa af yfirborðinu. Við verðum að vera aðgangsharðar í því að halda umræðunni gangandi.“

Konur standa saman

Guðrún hefur ekki fylgst með baráttu kvenna á samfélagsmiðlum heldur í gegnum fréttir.

„Nú er ég orðin svo fjörgömul, ég kann ekkert á þessa nýju samfélagsmiðla svokallaða. Ég tek ekkert þátt í því og fylgist ekki með því. En ég ímynda mér að það sé vettvangur þar sem er hægt að halda gangandi umræðu, stofna hópa og þannig lagað. Ég hef fylgst með í gegnum fréttir. Það sem er óbreytt frá minni tíð í stjórnmálum er hversu mikilvæg kvennasamstaðan er. Hún er ofsalega mikilvæg. Átak á borð við #metoo skiptir máli, þú finnur að þú ert ekki ein. Konur segja hver við aðra: Þú ert ekki ein. Ég hef þessa reynslu líka. Ég veit hvað þú ert að tala um. Þessi stuðningur skiptir öllu máli,“ segir Guðrún sem segir að mikið hafi verið gert úr því á níunda áratugnum að konur væru konum verstar.

„Þetta var viðtekið þá. Að konur gætu ekki treyst öðrum konum af því við værum í svo mikilli samkeppni um hylli karla. Þetta var og er rangt. Við höfum margsannað það. Við konur stöndum saman og eigum fullt af sameiginlegum hagsmunum þó að staða okkar í samfélaginu sé mismunandi.“



Kvenfyrirlitning í borgarstjórn

Guðrún ákvað á fimmtugsaldri að taka sæti á lista Kvennaframboðsins og lenti efst á lista. Hún var svo kjörin í borgarstjórn árið 1982. Fram að því hafði hún ekki verið virk í baráttu fyrir réttindum kvenna en í gegnum starf hennar í borgarstjórnmálum fann hún mjög sterkt fyrir misréttinu og stöðu kvenna í samfélaginu. Það var nefnilega lítið mark tekið á því sem hún og stöllur hennar í stjórnmálum höfðu fram að færa og þær mættu megnri kvenfyrirlitningu.



„Framboðið var mótmælaaðgerð. Við vildum sýna fram á misréttið og vekja athygli á málefnum sem snertu konur en líka samfélagið allt. Síðan myndum við leggja flokkinn niður. Við vorum því kraftmiklar, markmiðið var að breyta samfélaginu. Það var svo mikið líf í öllum aðgerðum og við færðum fram mörg mál sem snertu líf kvenna. Stofnaðir í kringum þau hópar og tekið til aðgerða. Sumt lifir enn í dag. Til dæmis Stígamót og Kvennaráðgjöfin. En annað hefur sofnað.

Það var fljótlega sem ég fann fyrir því hversu alvarleg kvenfyrirlitning og áreitni gegn konum þreifst í stjórnmálum. Ég fór nú með það í blöðin á sínum tíma þegar ég sat í borgarstjórn. Þá vildum við opna umræðuna um kynferðislega áreitni. Við fengum ekki mikinn meðbyr með því. Samt varð til hópur og við héldum saman nokkrar konur sem höfðum orðið fyrir áreitni.

Ég man að einhver blaðamaður hringdi í mig. Hann sagðist vera að velta því fyrir sér hvort kynferðisleg áreitni væri bundin við ákveðna vinnustaði. Ég sagði nei. Ég hefði orðið fyrir áreitni í borgarstjórn en trúði að það væri ekki bundið við stétt eða stöðu að neinu leyti. Heldur væri kynferðisleg áreitni fyrirbæri sem konur fyndu fyrir í öllum samfélögum. Það sem birtist var smáklausa, örlítil frétt. Þetta var um það leyti sem ég var að hætta í stjórnmálum, rétt áður en ég tók við Stígamótum,“ segir Guðrún frá.

Albert Guðmundsson (til hægri) að tefla við Hermann Gunnarsson.
Þótt fréttin hafi verið lítil, enginn nafngreindur og lítið sagt, þá brugðust karlkyns vinnufélagar í borgarstjórn illa við.

„Á þessum tíma vorum við búin að vera að ræða öldrunarþjónustu í Reykjavík og hvernig mætti bæta hana. En þeir neituðu að hlýða á okkur þótt málefnið væri gott. Það var vegna þessarar fréttar. Nú lægju þeir allir undir grun. Ég trúði þessu ekki, að þeir gætu virkilega ekki gert skil á milli málefnis og einstaklings.“

Greip í brjóstin og strauk um lærin

En hver var það sem beitti hana kynferðislegri áreitni? „Það var Albert Guðmundsson. Ég fékk aldrei frið. Hann setti sig aldrei úr færi. Hann var oft að ganga á eftir mér. Þegar maður fór í kaffi eða mat á borgarstjórnarfundum, þá var hann á eftir manni. Hann var grípandi í brjóstin á mér eða um rassinn.

Þetta var svo þrúgandi, það var alveg sama hvernig ég sneri mig út úr aðstæðum eða hvað ég sagði við hann. Ég bað hann um að hætta. Sagði: Þú skalt ekki halda að þetta sé eitthvað sem ég get hugsað mér að láta viðgangast. Það dugði aldrei neitt, hann hélt áfram. Hann settist oft við hliðina á mér við matarborð ef það var laust sæti. Hélt áfram að þreifa á lærunum á mér. Á endanum greip ég bara fast í klofið á honum og sagði: Það er best að ég taki upp þína siði. Þá verða það kaup kaups. Það dugði í þessu tilviki. Loksins hætti hann. En þetta var svo yfirgengilegt og fékk á mig.

Það var ekki einu sinni að hann færi leynt með þetta. Það gat frekar litið út eins og það væri eitthvert samband á milli okkar. Það fannst mér slæmt. Ég var svona frekar hlédræg manneskja. Mér fannst ekki gott að vera með upphrópanir og læti. Ég hélt að hann myndi hætta því það var alveg ljóst að þetta var etthvað sem ég vildi alls ekki. En hann lét ekki segjast þar til ég greip til þessa örþrifaráðs. Það er óviðunandi að þurfa að grípa til svona ráða.“

7. júlí, 1985 á fundi borgarstjórnar. Kvennaframboðskonur mæta í fundarsal sem skrýddar fegurðardrottningar. Magdalena Schram (ungfrú spök) og Guðrún Jónsdóttir (ungfrú meðfærileg). Sigurður Guðmundsson t.h.Mynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Ljósmyndari: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Mættu sem fegurðardrottningar á borgarstjórnarfund

Kvenfyrirlitningin tók á sig ýmsar myndir. Var nánast viðstöðulaus að sögn Guðrúnar. Konum í flokknum var brugðið þegar Davíð Oddsson ávarpaði fegurðardrottningar á Broadway árið 1985 og talaði niður til samstarfskvenna sinna í borgarstjórn. Þær ákváðu að taka til aðgerða.

„Við höfðum auðvitað það markmið í Kvennaframboðinu að grípa til aðgerða þegar færi gafst. Reyna að varpa nýju ljósi á atburði og stjórnmál. Davíð Oddsson ávarpaði fegurðardrottningar á Broadway. Frá þessu var sýnt í sjónvarpinu og ræðan opinber. Honum fannst hann ábyggilega vera mjög fyndinn þegar hann sagði eitthvað á þá leið að ef Kvennaframboðskerlingar væru jafn fallegar og þær, þá hefði ekki þýtt fyrir sig að ná í borgarstjórastólinn. Þetta fannst okkur yfirgengilegt. Í garð okkar og í garð fegurðardrottninganna. Að hlutgera okkur allar með þessum hætti. Við hugsuðum okkur um, hvernig við gætum eiginlega mætt honum. Það þýddi ekkert að rökræða við hann. Það höfðum við margreynt, við ákváðum að gera eitthvað sem sýndi fáránleikann í orðum hans.

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1991 þegar Davíð Oddsson var kjörinn formaður flokksins.vísir/gva
Fegurðardísaflokkinn sem gæti skákað honum annað en við öskubuskurnar sem ættum að halda okkur til hlés. Þá duttum við niður á þetta, að klæða okkur upp sem fegurðardísir. Ég og Magdalena Schram vorum fulltrúar í borgarstjórn á þessum tíma. Ingibjörg Sólrún var í fæðingarorlofi. Ég fékk lánaðan kjól hjá mömmu Möllu, úr satíni. Afskaplega flottan. Svo bjuggum við okkur til kórónur úr álpappír og náðum okkur í borða eins og fegurðardrottningar bera. Svo voru ellefu stelpur uppi á pöllunum í svona múnderingu. Ég var með borða sem á stóð: Ungfrú meðfærileg,“ segir Guðrún og hlær við minninguna enda varð allt kolvitlaust á fundi.

Sagðar vitlausar og óframbærilegar

„Við létum ekkert vita af þessu. Hringdum ekki í fjölmiðla eða neitt slíkt. Karlarnir í borgarstjórn vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Svo fór ég upp í pontu áður en fundurinn byrjaði til að útskýra að við ætluðum að reyna að hegða okkur á þessum fundi bæði í útliti og framkomu með þeim hætti að fara í spor þeirra kvenímynda sem borgarstjórinn leit góðu auga og vildi hafa í kringum sig. Við þóttumst svo ekki geta tekið afstöðu í nokkru máli og höguðum okkur eins og viljalausar brúður. Davíð var orðinn fokvondur. Sá ekkert fyndið við þetta og fannst við sýna borgarstjórn óvirðingu,“ segir Guðrún en í dag væri auðvitað tíðarandinn þannig að öllum væri ljóst að óvirðingin væri þess sem léti orð sem þessi falla.

„Davíð var ofboðslega einráður maður og hans máti að umgangast þá sem voru ekki í hans flokki var að niðurlægja. Hæðast að. Ég tala nú ekki um kerlingar eins og okkur. Hann kom inn á útlit okkar. Við værum ekki frambærilegar, vitlausar. Við kynnum ekki neitt og við ættum bara að vera heima.“

Það allra versta sem við getum lent í er þögnin. Ef þöggunin nær yfirhöndinni þá hættir að heyrast í konum. Það eru sterk öfl sem munu vilja þagga niður í konum núna,” segir Guðrún. Visir/Ernir

Salírólegur

Ræddi hún við Albert um þetta eftir á? Sýndi hann iðrun? „Nei, hann var salírólegur með þetta. Eins og þetta væri sjálfsagður hlutur. Eins og það væru engin landamæri. Eins og hann hefði vald til að meðhöndla þá í kringum hann eins og hann vildi. Framkoman lýsti virðingarleysi í garð fólks. Þegar maður er beittur kynferðislegri áreitni þá er maður sviptur öryggistilfinningu, sjálfsvirðingu og valdi yfir eigin persónu. Þetta er bara valdarán og lítillækkun,“ segir Guðrún ákveðin og segir konum mikilvægt að taka sér aftur þetta vald sem þær hafi verið rændar með lítilsvirðingu og kynferðislegri áreitni.

„Við verðum að hafa til þess úthald. Aldrei að gefast upp. Samstaða er eina leiðin. Við vinnum þetta ekki ein og ein. Ef að það er aðferðafræðin þá byrjar innlimunin í karlaklúbbinn. Þá samþykkja konur þennan heim og þessa fyrirlitningu. Það er ósköp eðlilegt ef sjálfsvirðing kvenna er ekki traust. Það er skiljanlegt því þetta er erfið barátta. Við erum margar brotnar. Ef maður er ekki með gott bakland og góðan stuðning í kringum sig þá er úti um mann.



Mótbyrinn

Hún segist skilja hvers vegna fáar konur endast í pólitík. Hennar reynsla var að mótbyrinn reyndist of mikill, þá þreytist konur.

„Það heltust margar konur úr lestinni á þessum tíma. Þegar farið var að líða á kjörtímabilið voru fáar eftir. Það var svo mikill mótbyr. Maður kom nánast engu máli í gegn. Allt brýn mál sem skiptu máli. Við tókum alltaf fjárhagsáætlunina og sömdum hana upp á nýtt. Með okkar forgangi, forgangsröðuðum öðruvísi. Þá var augsýnilegt að hægt var að ráðast í okkar málefni. En þetta var ekki góð reynsla. Maður sat eftir með þá tilfinningu að þetta ætti ekkert skylt við lýðræði. Þetta var eins og leikrit, þessir borgarstjórnarfundir. Það voru haldnar ræður en það var vitað löngu áður en fundirnir voru haldnir að mál fengju afgreiðslu inni í meirihlutanum.“

Verst er þögnin

Og nú þegar Guðrún lítur til baka. Öll þessi ár. Þá finnst henni sorglegt hversu lítið hefur í raun áunnist hvað varðar kynferðislega áreitni, kvenfyrirlitningu og ofbeldi.

„Mér finnast þetta átakanlegar sögur af kynferðislegri áreitni og fyrirlitningu. Til dæmis af þessum ungu stúlkum og hvernig flokksfélagar þeirra komu fram við þær þegar þær voru að fara í prófkjör. Að enn þann dag í dag ráði ekki málefnin heldur séu konur látnar trúa því að þær þurfi að njóta velvilja einhverra karla. Ég veit að það verða fleiri byltingar. En það allra versta sem við getum lent í er þögnin. Ef þöggunin nær yfirhöndinni, þá hættir að heyrast í konum. Það eru sterk öfl sem munu vilja þagga niður í konum núna og ýmsar lúmskar leiðir eru til þess að koma því til skila að best sé að þegja. Þessi bylting núna er mjög ógnandi fyrir suma. Þá sem finna sig seka. Ef þeir þá finna til sektar.“

Nú heyrast þær raddir að það eigi ekki að vera að rifja upp gömul mál. Nú séu breyttir tímar. Hvað finnst þér þegar þú heyrir svona lagað?

„Þetta eru ekki gild rök. Það sem hefur verið gert er rangt og meiðandi og má ekki liggja í þagnargildi. Við verðum að ræða þessa hluti og hjálpa bæði strákum og stelpum að átta sig á því hvað er í lagi og hvað er ekki í lagi. Hvað meiðir og hvað meiðir ekki. Strákar fá svo hryllingslega ruglingsleg skilaboð um hvað felst í því að vera karlmaður. Með því eru þeir rændir lífsgæðum og hamingju. Það er örugglega svolítið flókið að vera strákur í dag og horfa upp á þessa umræðu alla.

Við eigum öll að fá tækifæri til þess að nota eiginleika okkar til að gera það sem okkur langar til. Við verðum að horfast í augu við það að þannig er það ekki í dag. Frelsið er ekki til staðar og fyrirmynd stráka má ekki vera þessi gamli þögli karlmaður sem fer á hnúunum í gegnum lífið. Því verður að linna.“






×