Erlent

Handtekinn vegna sölu á „ebólu“-heróíni

Atli Ísleifsson skrifar
Barnabas Davis er nú í haldi lögreglu.
Barnabas Davis er nú í haldi lögreglu. Mynd/Lögreglan í Toms River
Lögregla í New Jersey handtók í byrjun vikunnar 47 ára gamlan mann fyrir sölu á heróíni og krakki í bænum Toms River. Að sögn lögreglu seldi Barnabas Davis heróínið undir nokkrum nöfnum, þar á meðal „ebóla“.

Í frétt New York Daily News kemur fram að algengt sé að eiturlyfjasalar notist við sérstök heiti á þeim efnum sem þeir selja. Er nöfnunum jafnan ætlað að ögra og til að kaupendur geti beðið um sérstaka blöndu eiturlyfsins. Segir að lögregla hafi áður séð heiti á borð við „Bil Laden“, „Hello Kitty“, „D.O.A.“, „Twin Towers“, „911“, „gumball“ og „pow“.

Að sögn lögreglu var Davis handtekinn á hóteli í Toms River og hald lagt á 633 pakkningum af heróíni og 40 grömmum af krakki. Pakkningarnar voru allar merktar, þar af dágóður fjöldi „ebóla“.

Að sögn lögreglu hafði starfsfólk hótelsins enga hugmynd um að Davis hafi verið að selja fíkniefni úr herbergi sínu á hótelinu, en Davis er nú í gæsluvarðhaldi í Ocean County fangelsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×