Innlent

Handtekinn með tvær milljónir króna í reiðufé og síma sem aðeins var hægt að nota fyrir dulkóðuð samskipti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Norræna í höfn á Seyðisfirði.
Norræna í höfn á Seyðisfirði. vísir
Annar Íslendinganna sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um aðild að umfangsmiklu fíkniefnasmygli hingað til lands með Norrænu í september síðastliðnum var með 15.600 evrur, eða rúmar tvær milljónir króna, á sér í umslagi þegar hann var handtekinn. Þá var hann líka með Blackberry-síma sem aðeins var hægt að nota til að eiga dulkóðuð samskipti. Frá þessu er greint í gæsluvarðhaldsúrskurði Hæstaréttar sem kveðinn var upp yfir manninum í seinustu viku.

Í kjölfar þess að maðurinn var handtekinn var gerð húsleit heima hjá honum. Þar fundust 25 iKort en iKortið er alþjóðlegt inneignarkort en fyrirtækið sem gefur kortin út „hefur sérhæft sig í kortalausnum fyrir þá sem vilja ekki vera með hefðbundin kort sem bankar gefa út.

Þegar kortin voru skoðuð kom í ljós að á tímabilinu 22. júlí til 10. september síðastliðinn voru lagðar inn rúmar átta milljónir króna á kortin og á fimm daga tímabili í september, nánar tiltekið 12. til 17. september, voru teknar út rúmlega 7 milljónir af kortunum.

Sjá einnig: Lögregla telur sig á slóð höfuðpauranna

Lögreglan elti Hollendinginn frá Seyðisfirði til Reykjavíkur

Tveir Íslendingar sitja í haldi vegna málsins en samkvæmt úrskurðinum lögðu þeir peningana inn á kortin og þá voru þau virkjuð úr símanúmerunum þeirra. Lögreglan telur að peningarnir hafi verið notaðir til að greiða fyrir fíknefnin sem smyglað var til landsins.

Upphaf málsins má rekja til þess að þann 22. september síðastliðinn kom Hollendingur til Seyðisfjarðar með Norrænu og var bifreið sem hann hafði til umráða flutt með ferjunni. Hefur Íslendingurinn sem handtekinn var með Blackberry-símann viðurkennt að hafa verið á Seyðisfirði þennan dag en segist hafa verið þar á ferðalagi.

Lögreglan veitti bifreiðinni sem Hollendingur var á eftirför og var henni ekið til Reykjavíkur og þaðan til Keflavíkur á tímabilinu 22. september til 25. september en þá fór Hollendingurinn úr landi.



Sjá einnig: Vilja að verjendur í umfangsmiklu fíkniefnamáli víki


Íslendingarnir aldrei langt undan

Á leið sinni til Reykjavíkur þann 23. september nam Hollendingurinn staðar en lögreglan sá þar aðra bifreið sem Íslendingurinn hafði tekið á bílaleigu þremur dögum áður. Daginn eftir, þann 24. september, var Hollendingurinn staddur við Laugaveg og sá lögreglan þá aðra bifreið skammt frá. Var þar þá kominn annar bíll sem Íslendingurinn hafði tekið á leigu. Var hann búinn að skila fyrri bílaleigubílnum og hafði honum þá verið ekið 1853 kílómetra.

Á sama tíma og Hollendingurinn og Íslendingurinn voru á Laugavegi sást til hins Íslendingsins sem situr í varðhaldi vegna málsins. Þennan sama dag ók Hollendingurinn svo til Suðurnesja og veitti lögreglan honum eftirför. Þegar bílnum var lagt við veitingastað í Keflavík tók lögreglan eftir bílnum sem Íslendingurinn hafði tekið á leigu. Skömmu síður stigu svo Íslendingarnir tveir út.

Þegar Hollendingurinn keyrði síðan á hótel í Keflavík fylgdu Íslendingarnir honum eftir, og enn var lögreglan líka á hælunum á honum. Daginn eftir fór hann svo með flugi frá Íslandi og lagði bílnum sínum í skammtímastæði við Keflavíkurflugvöll. Þremur dögum síðar kom hann svo aftur hingað og var þá annar Hollendingur með honum í för.

Þeir óku hvor á sínum bílnum að gistiheimili en lögreglan sá bílinn sem annar Íslendingurinn hafði tekið á leigu nokkrum dögum fyrr skammt undan þegar Hollendingurinn sótti bíl sinn á bílastæðið á Keflavíkurflugvelli.

Yfir 20 kíló af sterkum efnum

Hollendingarnir tveir voru svo handteknir á gistiheimilinu en í bíl Hollendingsins fundust 19,5 kíló af amfetamíni og 2,5 kíló af kókaíni. Annar Íslendingurinn var svo handtekinn skammt frá í bílnum sem hann hafði tekið á leigu, með fyrrnefndan pening og Blackberry-síma á sér.

Hinn Íslendingurinn var svo handtekinn heima hjá sér en í bílnum hans fundust umbúðir utan af símanum og blað með númerum iKortanna sem síðar fundust annars staðar.

Fjórmenningarnir hafa allir verið í gæsluvarðhaldi frá því þeir voru handteknir í september. Þeir sæta nú gæsluvarðhaldi til 22. desembers en eru ekki lengur í einangrun.


Tengdar fréttir

Lögreglan fylgdist með hollenska bílnum í nokkra daga

Fólksbíll sem lögreglan lagði hald á síðastliðinn mánudag vegna gruns um að fíkniefni væru í honum var vaktaður af fíkniefnalögreglunni í nokkra daga þar sem hann stóð óhreyfður á bílaplani.

Hæstiréttur stytti gæsluvarðhaldið um eina viku

Hæstiréttur stytti í dag gæsluvarðhald og einangrun yfir fjórum mönnum sem grunaðir eru um að hafa reynt að smygla 23 kílóum af sterkum fíkniefnum hingað til lands með Norrænu þann 22. september síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×