Innlent

Handtekinn á grænu reiðhjóli á Grensásvegi

Maðurinn var í stolnum fatnaði, á stolnu reiðhjóli, þegar hann var handtekinn.
Maðurinn var í stolnum fatnaði, á stolnu reiðhjóli, þegar hann var handtekinn. vísir/pjetur
Tveir menn voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdir í fangelsi fyrir þjófnað og tilraun til fjársvika. Annar þeirra, sem er á fertugsaldri, var dæmdur í sjö mánaða fangelsi og hinn, sem er á fimmtugsaldri í fimm mánaða fangelsi.

Mönnunum var gefið að sök að hafa í nóvember í fyrra brotist inn í hús við Langagerði á meðan húsráðandi svaf og stolið þaðan riffli, þremur farsímum og öðrum raftækjum, fatnaði, verkfærum og öðru lauslegu. Þá eru þeir sagðir hafa gert tilraun til að stela þremur fartölvum og tösku með myndavél og linsu.

Þá var sá yngri ákærður fyrir að hafa í október í fyrra stolið tveimur úlpum starfsmanna í matvöruversluninni Þinni verslun við Seljabraut og úlpu þriðja aðila en í henni voru einhver verðmæti, meðal annars greiðslukort sem hann reyndi að nota á bensínstöð.

Einnig var hann ákærður fyrir að hafa hinn 21. nóvember í fyrra brotist inn í hús og stolið þaðan ferðatöskum og fatnaði, þar á meðal peysu sem hann var í við handtöku. Þennan sama dag stal hann grænu reiðhjóli sem hann notaði til að hjóla á lögreglustöðina við Grensásveg þar sem hann var handtekinn.

Báðir eiga mennirnir töluverðan sakaferil að baki en sá yngri hefur alls 34 sinnum verið dæmdur fyrir brot á almennum hegningarlögum, umferðarlögum, vopnalögum og lögum um ávana- og fíkniefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×