Erlent

Hamfarirnar miklu áratug síðar

Á ströndinni við Khao Lak. Kusol Wetchakul fer með bænir sínar þann 29. desember árið 2004 í minningu systur sinnar, sem var ein þeirra sem létu lífið í hamförunum þremur dögum fyrr.
Á ströndinni við Khao Lak. Kusol Wetchakul fer með bænir sínar þann 29. desember árið 2004 í minningu systur sinnar, sem var ein þeirra sem létu lífið í hamförunum þremur dögum fyrr. fréttablaðið/AP
„Við vorum að klára síðustu tökuna þegar sólin tók að rísa,“ skrifar taílenska sjónvarpsfréttakonan Tassanee Veijpongsa. Hún kom ásamt tökumanni sínum til Phuket daginn eftir að flóðbylgjan mikla skall á ströndinni þar.

„Þetta hafði verið löng nótt fréttaflutnings frá því sem virtist ætla að verða ótrúlegar náttúruhamfarir víða í löndum Suður-Asíu. Einn dagur var liðinn frá því flóðbylgjan mikla lagði í rúst hina frægu ferðamannastaði á ströndinni við Phuket, þegar við fengur fregnir af hinum rólega strandbæ Khao Lak stuttu norðar.

Þegar bifreiðin ók niður í áttina að Khao Lak starði ég út um gluggann á víðáttumikla strandlengjuna. Venjulega er þessi draumkennda strönd þakin hvítum sandi og slútandi kókostrjám. Nú var hún stráð marglitu braki og eyðileggingu svo langt sem augað eygði. En hve þetta er litríkur glundroði, hugsaði ég með mér.

Bílstjórinn okkar hægði á bifreiðinni og virtist vera að átta sig á því, rétt eins og ég, að þessi litur var hvorki rusl né rústir, heldur lík af fólki. Lík af ferðamönnum, sveipuð skrautlegum litklæðum sem fólk klæðist gjarnan í strandfríum. Bjartir gulir litir og djúprauðir, sundföt og sólklæðnaður.

Þögnin var yfirþyrmandi. Engin önnur lifandi vera var neins staðar nálæg.

Þessi sjón, og þetta skelfingaraugnablik þegar ég áttaði mig á umfangi hamfaranna, hefur aldrei horfið úr huga mér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×