Innlent

Hamborgarhryggurinn enn langvinsælastur

Haraldur Guðmundsson skrifar
Samkvæmt könnuninni er hamborgarhryggur vinsælastur hjá þeim sem eru með 400-599 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði.
Samkvæmt könnuninni er hamborgarhryggur vinsælastur hjá þeim sem eru með 400-599 þúsund krónur í heimilistekjur á mánuði.
Um helmingur landsmanna ætlar að borða hamborgarhrygg í aðalrétt á aðfangadag samkvæmt nýrri könnun MMR. Aðrir algengir aðalréttir eru lambakjöt, rjúpur og kalkúnn.

Alls 50,4 prósent aðspurðra sögðust ætla að borða hamborgarhrygg, 8,7 prósent rjúpur og 8,5 prósent kalkún. Svínakjöt, annað en hamborgarhryggur, verður á borðum 4,5 prósenta aðspurðra en 17,2 prósent sögðust ætla að borða eitthvað annað en fyrrgreinda kosti.

MMR kannaði einnig hvað fólk ætlar að borða eftir aldri, búsetu og stuðningi við stjórnmálaflokka.

„Þeir sem tilheyrðu aldurshópnum 50-67 ára borða síður hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld en aðrir hópar. Þeir sem tilheyrðu aldurshópnum 50-67 ára voru hins vegar líklegri til að borða lambakjöt en aðrir,“ segir í tilkynningu MMR.

Samkvæmt könnuninni borða íbúar á landsbyggðinni frekar lambakjöt á aðfangadag en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Hamborgarhryggur er þó vinsælastur hjá báðum hópum.

„Lambakjöt nýtur meiri vinsælda sem aðalréttur á aðfangadag á meðal stuðningsfólks Framsóknarflokksins en stuðningsfólks annarra flokka. Stuðningsfólk Vinstri-grænna sagðist frekar ætla að borða rjúpur sem aðalrétt á aðfangadag en stuðningsfólk annarra flokka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×