Enski boltinn

Hamann: Kominn tími til að Liverpool hnykli vöðvana

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Raheem Sterling vill fara frá Liverpool.
Raheem Sterling vill fara frá Liverpool. vísir/getty
Liverpool á ekki einu sinni að ræða við Raheem Sterling eða umboðsmann hans í sumar um mögulega sölu frá félaginu nema alvöru tilboð berist.

Þetta segir Dietmar Hamann, þýski landsliðsmaðurinn fyrrverandi sem varð Evrópumeistari með Liverpool fyrir tíu árum.

Sterling hefur í marga mánuði verið í samningaviðræðum við Liverpool, en hann ætlar ekki að skrifa undir nýjan samning. Núgildandi samningur hans rennur út eftir tvö ár.

Aidy Ward, umboðsmaður Liverpool, hefur verið gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla undir lok tímabilsins þar sem hann sagði Sterling vera á leið frá félaginu og hann myndi ekki skrifa undir nýjan samning þó hann fengi 900.000 pund á viku.

„Það er komin tími til að Liverpool hnykli vöðvana og sýni leikmönnum og umboðsmönnum að þetta er Liverpool,“ segir Hamann í viðtali við Sky Sports News.

„Ég er ekki viss um að umboðsmaður Sterlings hefði látið þetta út úr sér ef strákurinn væri að spila fyrir Manchester City, Arsenal, Chelsea eða Manchester United.“

„Nú verður Liverpool að sýna klærnar og sýna fólki hvernig hlutirnir eru gerðir. Ef ekkert lið býður alvöru upphæð í Sterling myndi ég ekki einu sinni ræða við leikmanninn eða umboðsmann hans.“

„Hann á tvö ár eftir af samningnum þannig það þarf ekkert að ræða málin núna. Ég myndi svo sannarlega ekki bjóða honum nýjan samning því það veit enginn hvað verður um hann. Hann er hæfileikaríkur spilari en var ekki góður á síðustu leiktíð,“ segir Dietmar Hamann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×