Innlent

Hallur Magnússon hættir á Útvarpi Sögu: Skilur algjörlega á milli í málefnum múslima

Bjarki Ármannsson skrifar
Hallur Magnússon segir sína upplifun hafa verið þá að útvarpsstöðin væri að taka afstöðu með gagnrýni á byggingu mosku og múslima.
Hallur Magnússon segir sína upplifun hafa verið þá að útvarpsstöðin væri að taka afstöðu með gagnrýni á byggingu mosku og múslima. Vísir/GVA/GVA
Hallur Magnússon fjölmiðlamaður sagði í dag upp starfi sínu á Útvarpi Sögu vegna fréttaflutnings stöðvarinnar af málefnum múslima og byggingu mosku í Reykjavík. Hann segir „gott fólk“ starfa á miðlinum en að eftir að síðasta frétt hans á vef stöðvarinnar var „strokuð út“ í dag hafi hann ekki getað hugsað sér að starfa þar áfram.

„Þessir þrír mánuðir hafa verið mjög spennandi,“ segir Hallur. „Útvarp Saga er að mínu mati mjög vanmetinn fjölmiðill og það er búið að vera mjög spennandi að byggja þarna vef.“

„En í þessu prinsipp-máli, sem er mín afstaða til þess að algjört jafnræði eigi að ríkja gagnvart öllum, óháð trúarbrögðum, kynþætti og kynhneigð, var mín upplifun sú að útvarpsstöðin væri að taka afstöðu með gagnrýni á byggingu mosku og múslima. Þótt að upplifun stjórnenda Útvarps Sögu kunni að vera öðruvísi, þá breytir það því ekki að þetta var mín upplifun.“

Hann  fjallar ítarlega um aðdraganda þess að hann sagði upp störfum á pistli sem birtist á Eyjunni í kvöld. Þar segist hann „ekki sáttur“ með hvernig miðillinn hefur nálgað viðfangsefnið að undanförnu og að hann virðist „frekar kynda undir andúð á ákveðnum hópi Íslendinga.“ Hann undirstrikar þessa skoðun sína í samtali við fréttastofu.

„Ég bara gat ekki unnið með miðli sem mér fannst að væri að taka á þessu máli í þessu ljósi.“

Hann segir ákveðin vatnaskil hafa orðið þegar hann setti inn frétt á vef Útvarps Sögu í dag þar sem hann greindi frá viðbrögðum Salman Tamimi, forstöðumanns Félags múslima, við viðtali Péturs Gunnlaugssonar við Salman. Hann segir að fréttinni hafi verið eytt út af vefnum nánast um leið.

„Þá fannst mér ég þurfa að tala skýrt og hætta,“ segir Hallur.

Hann segir í pistli sínum að áður en fréttinni hafi verið eytt hafi hann verið búinn að ákveða að ræða við stjórnendur stöðvarinnar eftir helgi um stefnu þeirra í málum múslima.

Varst þú vongóður á að þau myndu endurskoða stefnuna?

„Ég bara veit það ekki,“ viðurkennir hann. „Vonandi. En mér sýnist á viðbrögðum í kvöld að þau sjái þetta ekki í sama ljósi og ég. Og bara gott og vel með það.“

Hann á þar meðal annars við ummæli sem Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Sögu, lét falla á Facebook-síðu hans í kvöld. Þar segir hún meðal annars: „Ég vil vekja athygli ykkar á því að Hallur var ekki ráðinn lengur en til dagsins í dag og það var ákveðið að ræða um framhaldið eftir helgi.“

„Starfssamningurinn var þannig að við myndum taka stöðuna og taka ákvörðun um áframhaldið,“ segir Hallur. „En hann hefur ekkert með málið að gera.“

Telur þú að þessi stefna Útvarps Sögu sé til marks um þróun í ranga átt?

„Nei, ég held að þetta sé bara svona tímabundin stemning,“ segir hann. „Þetta fólk er ekki rasistar, svo það sé alveg á hreinu. En þetta er búið að vera stemningin á miðlinum undanfarna daga og ég get bara ekki tekið þátt í því, hvort sem þau meina það eða ekki.“

„Þetta er gott fólk að gera góða hluti. En á þessu sviði skilur algjörlega á milli.“


Tengdar fréttir

Oddviti Framsóknar vill afturkalla lóð til múslima

"Ég hef búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu," segir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti lista Framsóknarflokksins og flugvallarvina. Hún telur að á meðan hér á landi sé þjóðkirkja eigi ekki að úthluta lóðar til byggingu mosku eða sambærilegra húsa annarra trúfélaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×