Íslenski boltinn

Hallgrímur Mar samdi við Víking

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hallgrímur með þjálfaranum Milos Milojevic og Heimi Gunnlaugssyni, varaformanni knattspyrnudeildar Víkings.
Hallgrímur með þjálfaranum Milos Milojevic og Heimi Gunnlaugssyni, varaformanni knattspyrnudeildar Víkings. Vísir/Tom
Pepsi-deildar lið Víkings er byrjað að styrkja sig fyrir átökin næsta sumar, en félagið gekk frá samningi við kantmanninn öfluga Hallgrím Mar Steingrímsson í dag.

Þessi 24 ára gamli Húsvíkingur skrifaði undir þriggja ára samning við Fossvogsfélagið í Víkinni í dag, en þetta verður í fyrsta skipti sem hann spreytir sig í deild þeirra bestu.

Hallgrímur Mar, sem gekk í raðir KA frá uppeldisfélagi sínu Völsungi árið 2009, hefur verið einn skæðasti sóknarmaðurinn í 1. deildinni undanfarin ár.

Síðustu þrjú sumur hefur hann skorað 22 mörk í 58 leikjum og var kosinn í lið ársins af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar 2012 og aftur í ár eftir að skora níu mörk í 21 leik.

Hallgrímur var samningslaus eftir tímabilið og æfði með KR fyrr í mánuðinum, en hann sagði fjögur félög berjast um sig í viðtali við fótbolti.net fyrr í vikunni.

Víkingar, sem höfnuðu í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar í sumar og spila í Evrópukeppni í fyrsta sinn í 23 ár á næsta tímabili, ætla sér að styrkja liðið enn frekar, að sögn HeimisGunnlaugssonar, formanns meistaraflokksráðs.

Fossvogsliðið missti sinn besta mann, Aron Elís Þrándarson, í atvinnumennsku eftir tímabilið, en hann gerði þriggja ára samning við norska úrvalsdeildarliðið Álasund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×