Innlent

Hálka og éljagangur víða um land

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er um að gera að fara varlega í umferðinni.
Það er um að gera að fara varlega í umferðinni. Vísir/Anton Brink
Hálka og hálkublettir eru á flestum leiðum á Suðurlandi. Þá eru hálkublettir og éljagangur á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka og éljagangur eru á Mosfellsheiði og snjóþekja og éljagangur á Lyngdalsheiði.

Þá eru hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum á Vesturlandi. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði en snjókoma og snjóþekja á Bröttubrekku.

Flughált er í Ísafjarðardjúpi og hálka eða hálkublettir á öðrum leiðum á Vestfjörðum. Hálka og éljagangur eru á Steingrímsfjarðarheiði. Þungfært og snjókoma er á Dynjandisheiði og hálka og éljagangur eru á Hrafnseyrarheiði.

Á Norðurlandi vestra er að mestu greiðfært. Þó eru hálka og hálkublettir í Húnavatnssýslum og hálka á Vatnsskarði. Á Norðurlandi eystra eru hálkublettir inn til landsins en greiðfært með ströndinni.

Á Austurlandi er hálka á Fjarðarheiði. Þá eru hálkublettir í Fagradal og á Öxi en annars að mestu greiðfært. Krapi og éljagangur eru í Öræfasveit og að Kirkjubæjarklaustri og hálkublettir í kringum Vík. Annars er greiðfært með suðurströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×