Innlent

Hálffylltu gám af rusli sem lá víða á Ægisíðu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ríflega hundrað manns lögðu hönd á plóg og tíndu upp rusl og drasl til að gera umhverfið snyrtilegra.
Ríflega hundrað manns lögðu hönd á plóg og tíndu upp rusl og drasl til að gera umhverfið snyrtilegra. vísir/anton
Rúmlega hundrað sjálfboðaliðar gengu meðfram strandlengju Ægisíðunnar og Seltjarnarness í gær og tíndu upp rusl sem varð á vegi þeirra. Skipuleggjandi tínslunnar segir að henni hafi dottið þetta í hug og ákveðið að gera þetta.

„Ég bjóst ekki við nema tíu til tuttugu manns,“ segir Þórdís Þórhallsdóttir. Hún las fregnir af fólki sem gengið hafði um Laugarnesið á dögunum og hugsaði með sér að hún gæti alveg staðið fyrir sambærilegum viðburði sjálf.

„Ég mundi eftir orðunum „ef ekki ég, hver þá? Ef ekki núna, hvenær?“ og ákvað að gera þetta.“

Þórdís áætlar að alls hafi um 130 manns mætt til að leggja hönd á plóg. Þar af hafi verið á þriðja tug manns frá alþjóðlegu sjálfboðaliðasamtökunum SEEDS.

„Ég vissi ekki hverju ég átti að búast við. Ég hélt fyrst að það myndu ekki svona margir mæta þannig þetta var framar björtustu vonum. Það höfðu um hundrað manns meldað sig á viðburðinn á Facebook og ég held að flestir hafi mætt og margir hafa dregið einhvern með sér,“ segir Þórdís. Fólk hafi mætt með marka, foreldra, börn og gæludýr til að gera Ægisíðuna þrifalegri.

Svæðið sem fólkið gekk um nær frá vesturenda flugbrautar 13-31 á Reykjavíkurflugvelli og að mörkum Reykjavíkur og Seltjarnarness. Þar mætti hópurinn öðrum hópi sem gengið hafði um Seltjarnarnesið í sömu erindagjörðum. Hóparnir tveir mættust síðan á miðri leið og settu afraksturinn í þar til gerðan gám.

Verkið hófst upp úr hádegi og lauk um klukkan fjögur. Talsvert magn af rusli safnaðist en Þórdís segir að í lokin hafi verið um hálfur gámur af svörtum ruslapokum. Þegar pokarnir fylltust hafi þeir verið skyldir eftir og þátttakendur með kerrur eða á pallbílum tekið þá upp.

„Ég bý nálægt Ægisíðunni og þetta er vinsælt útivistarsvæði. Margir ganga, skokka eða hjóla meðfram sjónum á degi hverjum. Það er mikilvægt að þessi vinsæli staður sé snyrtilegur svo fólk haldi áfram að nýta sér hann,“ segir Þórdís.

Aðspurð segir Þórdís að það sé óvíst hvort hún muni standa fyrir sambærilegum viðburði aftur seinnar meir.

„Ef þú sérð rusl í kringum þig ekki bíða með að hreinsa það. Gerðu þetta bara. Þú getur ekki treyst á það að einhver annar muni hreinsa þetta fyrir þig,“ segir hún að lokum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×