Viðskipti innlent

Hálf Icesave skuld greidd

Nýi Landsbankinn greiddi þrotabúi gamla bankans 73 milljarða króna í erlendum myntum fyrir helgi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður upphæðin mjög fljótlega greidd út til forgangskröfuhafa bankans. Eftir þá greiðslu verður þrotabú Landsbankans búið að greiða rúman helming hinnar svokölluðu Icesave-skuldar.

Þegar samið var um greiðslur nýja Landsbankans fyrir þær eignir sem hann fékk frá þeim gamla voru meðal annars gefin út verðtryggð skuldabréf sem gátu hækkað samhliða virði eignanna. Endurgreiðslur á skuldabréfunum, sem metin voru á um 290 milljarða króna í lok mars síðastliðins, áttu að hefjast í janúar 2014 og standa fram í október 2018.

Fyrir helgi samdist um að nýi Landsbankinn fyrirframgreiddi fjórðung skuldabréfanna, alls um 73 milljarða króna, strax og frestaði þar með fyrsta gjalddaga fram í apríl 2015. Upphæðin var öll greidd í evrum, pundum og dollurum. Við það sparar nýi bankinn sér umtalsverðan fjármagnskostnað, enda voru vextir á skuldabréfunum mun hærri en sú ávöxtun sem hann fékk á erlent laust fé sitt.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður upphæðin greidd út til kröfuhafa gamla Landsbankans mjög fljótlega og bætist þar með við þá 594 milljarða króna sem áður hafa verið greiddar út til þeirra frá því í desember síðastliðnum. Þar með hefur þrotabúið greitt rúmlega 50 prósent af forgangskröfum sínum, sem nema samtals 1.323 milljörðum króna. Af þeim eru kröfur tryggingarsjóðs innstæðueigenda í Hollandi og Bretlandi vegna innlánasöfnunar Landsbankans í þeim löndum, meðal annars á Icesave-netreikninga, 86 prósent upphæðarinnar. Tryggingarsjóður innstæðueigenda á Íslandi (TIF) er í ábyrgð fyrir 674 milljörðum króna, eða helmingi allra samþykktra forgangskrafna. Sú greiðsla sem þrotabúið verður búið að greiða út á næstu vikum er nánast jafnhá og sem nemur ábyrgð TIF.

Samkvæmt eignamati slitastjórnar Landsbankans frá því í mars síðastliðnum mun þrotabúið eiga fyrir öllum forgangskröfum og eiga 122 milljarða króna umfram þær til að greiða almennum kröfuhöfum.

- þsj





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×