Skoðun

Hagur fleiri fyrir hag færri

Hermundur Sigmundsson skrifar

Það er klárt mál að við sem þjóð höfum mörg mál sem við verðum að leysa til að hagur fleiri sé settur í forgang. Það er að segja það eru stór mál sem þarf að leysa þar sem ákvarðanir séu teknar án þess að hagsmunatengsl stjórni.



Nokkrar spurningar sem við sem þegnar þessa lands þurfum að svara:



Auðlindir:

1. Er hægt að nýta auðlindir þjóðarinnar þannig að fleiri njóti góðs af?

2. Væri hægt að byggja upp sterkari grunnstoðir þjóðfélagsins, velferðarkerfi, með réttlátari nýtingu og skiptingu auðlinda?

3. Getur ríkisvaldið byggt upp eða komið að atvinnustarfsemi sem kæmi sem flestum landsmönnum til góða?

4. Gæti ríkið komið að uppbyggingu atvinnuhátta, svo sem nautgripaframleiðslu, svo að við yrðum sjálfbær á því sviði?

5. Gæti ríkið komið að frekari uppbyggingu atvinnugreina eins og fiskeldis og grænmetisræktar?

6. Gæti ríkið komið í sterkari mæli inn í fiskveiðar og væri hægt að sjá til þess að allir landshlutar gætu haft möguleika á kvóta til fiskveiða þannig að búseta á öllu landinu sé tryggð?



Fjárhagskerfið:

7. Þyrfti ekki ríkisvaldið að taka meiri stjórn á bankakerfinu og eignast stærri hlut í þeim bönkum sem hér starfa?

8. Er ekki hinn almenni borgari búinn að búa nógu lengi við slæmar aðstæður, samanber verðtryggingu á lánum og háa vexti?

9. Er ekki kominn tími til að afnema verðtryggingu af lánum?

Skólamál:

10. Verðum við ekki að sjá til þess að sem flestir læri að lesa þar sem lestur er undirstaða alls annars náms?

11. Þyrftum við ekki að endurskoða lengd kennaranáms? Ættum við ekki að miða kennsluréttindi við þriggja ára bachelor-nám (B.Ed.) og huga frekar að innri gæðum námsins?

12. Er ekki kominn tími til að vinna að betri launum kennara og leikskólakennara?

13. Ættum við ekki að endurskoða allt háskólaumhverfið, það er að segja stærð þess og hugsa frekar um gæði náms sem boðið er upp á?

14. Höfum við nógu mikið af fræðimönnum til að halda uppi svo stóru háskólaumhverfi sem er hér á landi?



Við erum um það bil 330.000 íbúar þessa lands. Með réttri skiptingu okkar miklu auðlinda ættum við öll að geta haft það gott.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×