Skoðun

Hagsmunamat hins opinbera

Kolbeinn Árnason skrifar
Það er hagur sjávarútvegsfyrirtækja að farið sé vel með auðlindir sjávar, að gengið sé um þær af virðingu og þær nýttar með hagkvæmum og umhverfisvænum hætti.

Ábyrgar og sjálfbærar veiðar skipta ekki einungis máli varðandi nýtingu fiskistofnanna heldur er horft til þess erlendis hvernig við Íslendingar umgöngumst sjávarauðlindina þegar kemur að sölu- og markaðsstarfi með sjávarafurðir.

Hlutverk Hafrannsóknastofnunar er að veita ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu á fiskistofnunum í lögsögu Íslands og aflamark hvers fiskveiðiárs er ákveðið af ráðherra sjávarútvegsmála sem horfir til ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar.

Fjárfest fyrir milljarða

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki skipta sköpum í uppbyggingu efnahags þjóðarinnar eftir hrun bankanna. Þau gegna lykilhlutverki í gjaldeyrisöflun landsins, eru grunnatvinnuvegur, skapa hagvöxt, ný störf og halda úti starfsemi víða um landið. Þá hafa sjávarútvegsfyrirtækin í landinu fjárfest fyrir milljarða á síðustu misserum.

Sjávarútvegsfyrirtækin eru í eigu Íslendinga og greiða alla almenna skatta og opinber gjöld eins og gerist og gengur í fyrirtækjarekstri á Íslandi. Ólíkt öðrum fyrirtækjum á Íslandi sem nýta náttúruauðlindir þá greiða sjávarútvegsfyrirtækin fyrir það sérstakt gjald, margumrætt veiðigjald sem meðal annars er ætlað að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og vinnslu auk þess sem því er ætlað að tryggja þjóðinni hlutdeild í arði sem nýting auðlindarinnar skapar.

Standa undir kostnaðinum

Á árinu 2013 greiddu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki 9,7 milljarða króna í ríkissjóð í formi veiðigjalda. Fyrirtækin greiða auk þessa mun hærri fjárhæðir í gegnum hið hefðbundna skattkerfi. Þau greiða til að mynda stóran hluta alls tekjuskatts lögaðila í landinu.

Árið 2013 nam kostnaður við rekstur Hafrannsóknastofnunar 1.581 m.kr. og rekstur Fiskistofu 839 m.kr. Það liggur því fyrir að veiðigjöldin ein og sér standa meira en ríflega undir kostnaði ríkisins af rannsóknum, stjórn og eftirliti vegna sjávarútvegs í landinu. Samt virðast ekki til fjármunir til að standa að allra nauðsynlegustu rannsóknum sem þarf til að hægt sé að nýta auðlindina með ábyrgum hætti.

Eigum mikið undir

Nú liggur fyrir að Hafrannsóknastofnun hefur ekki fjármuni til að fara í árlega haustmælingu á loðnustofninum. Að óbreyttu falli haustmælingin því niður sökum fjárskorts og muni mæling á loðnustofninum ekki fara fram fyrr en eftir áramót. Þetta eykur líkurnar á því að mæling á loðnustofninum heppnist ekki sem skyldi með þeim afleiðingum að kvótaaukning upp á ríflega 200 þúsund tonn verði ekki gefin út. Til að varpa ljósi á hagsmuni málsins má ætla að útflutningsverðmæti 200 þús. tonna af loðnu sé ekki undir 12 milljörðum króna í gjaldeyristekjum. Til hliðsjónar má ætla að loðnuleiðangur Hafró kosti um 60-70 milljónir króna.

Fyrirtæki í sjávarútvegi og þjóðin öll eiga mikið undir því að haf- og fiskirannsóknum á Íslandsmiðum sé sinnt af myndugleik. Þetta hlutverk taka stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja alvarlega, sem nýlegt dæmi má nefna aðkomu aðila í rækjuveiðum að kostun mælinga á rækju.

Sjávarútvegur á Íslandi er enn sem áður hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi. Ef mikilvægar grunnrannsóknir, sem aflamark byggist á, eru ekki stundaðar sökum fjárskorts, þrátt fyrir áðurnefnd veiðigjöld og skatta, vaknar sú spurning hvort rannsóknum á þessu sviði sé betur komið á hendi sjávarútvegsfyrirtækjanna sjálfra, gegn lækkun gjalda. Sjávarútvegsfyrirtækin hafa öll hag af því til lengri tíma að fiskistofnarnir við Ísland dafni sem best og rannsóknum sé sinnt af ábyrgð.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×