Viðskipti innlent

Hagnaðurinn nam 10,5 milljörðum króna

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Eftir skatta nemur hagnaður Icelandair Group á þriðja ársfjórðungi 2014 85,8 milljónum Bandaríkjadala, eða sem svarar 10.464 milljónum íslenskra króna.

Miðað við sama tíma í fyrra eykst hagnaðurinn um 31,4 prósent, en þá var hann 65,3 milljónir dala, eða sem svarar tæpum átta milljörðum króna miðað við gengi dollars í gær.

Björgólfur Jóhannsson
„Tæplega 970 þúsund farþegar ferðuðust með félaginu í fjórðungnum og hafa þeir aldrei verið fleiri. Aukin umsvif í millilandaflugi ásamt mikilli fjölgun ferðamanna til Íslands höfðu jákvæð áhrif á aðra starfsemi samstæðunnar,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu til Kauphallar. 

Fram kemur að framboð í leiðakerfi flugfélagsins hafi verið aukið um 19 prósent frá fyrra ári. Sætanýting er sögð hafa verið 84,2 prósent á fjórðungnum, um 0,7 prósentum betri en á þriðja fjórðungi 2013. 

Hagnaður Icelandair Group fyrir vexti, skatta, afskriftir og niðurfærslur (EBITDA) nam 123,9 milljónum dala (15,1 milljarði króna) samanborið við 102,2 milljónir dala (12,5 milljarða króna) árið áður.

Fram kemur að heildartekjur félagsins hafi aukist um 13 prósent milli ára og að eiginfjárhlutfall félagsins hafi verið 46 prósent í lok september.

Félagið gerir ráð fyrir tólf prósenta aukningu í millilandaflugi á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×