Viðskipti innlent

Hagnaðurinn jókst um 67 prósent

Sæunn Gísladóttir skrifar
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir afkomuna betri en áætlanir stjórnenda gerðu ráð fyrir í upphafi árs.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir afkomuna betri en áætlanir stjórnenda gerðu ráð fyrir í upphafi árs. Vísir/GVA
Hagnaður Icelandair Group nam 111,2 milljónum dollara, jafnvirði  14,1 milljörðum íslenskra króna, á síðasta ári og jókst um 44,7 milljónir dollara, eða tæpa sex milljarða, milli ára. Hagnaðaraukning milli ára nam 67 prósentum.

Rekstrartekjur jukust um tvö prósent á milli ára. Tekjuaukning á föstu gengi nam 12 prósent. EBITDA 2015 nam 219 milljónum dollara, jafnvirði 27,9 milljarða króna, samanborið við 154,3 milljónir dollara, jafnvirði tæplega 20 milljarða króna árið 2014. EBITDA á fjórða ársfjórðungi var jákvæð um 20,1 milljón dollara, eða 2,5 milljarða króna, en var neikvæð um 1,5 milljónir dollara, eða 191 milljón króna, á sama tímabili á síðasta ári.

Eiginfjárhlutfall var 47 prósent í árslok 2015 samanborið við 43 prósent í árslok 2014.

„Rekstur félagsins gekk vel á árinu og afkoman er betri en áætlanir stjórnenda gerðu ráð fyrir í upphafi árs og EBITDA ársins er við efri mörk síðustu afkomuspár félagsins. Margir samverkandi þættir hafa jákvæð áhrif á sterkt ársuppgjör. Þar má nefna lækkandi eldsneytisverð, aukna eftirspurn á Norður-Atlantshafsmarkaðinum sem við höfum mætt með auknu framboði ásamt góðri afkomu í leiguflugi og fraktflugi. Þá hefur nýting á hótelherbergjum aukist talsvert milli ára,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri í tilkynningu.

„Horfur í rekstri Icelandair Group fyrir árið 2016 eru góðar. Félagið kynnti síðastliðið haust flugáætlun sína í millilandaflugi fyrir árið 2016, sem gerði ráð fyrir aukningu framboðinna sætiskílómetra á milli ára um 18 prósent. Síðan hefur sala gengið vel og innflæði bókana verið það gott að við höfum ákveðið að bæta einni Boeing 757 vél til viðbótar í flotann.  Heildarframboðsaukning milli ára verður því 24 prósent.“


Tengdar fréttir

27 þotur í flota Icelandair

Icelandair hefur ákveðið að bæta við einni Boeing 757 þotu til viðbótar við þær tvær breiðþotur sem átti að bæta við.

Veltan jókst um 34% milli 2014 og 2015

"Myndarleg aukning varð í viðskiptum á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði á árinu sem er að líða,“ segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallar Íslands, Nasdaq Iceland, um viðskiptin á árinu 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×