Viðskipti innlent

Hagnaður Vodafone jókst um 1%

Haraldur Guðmundsson skrifar
Stefán Sigurðsson segir fyrirtækið hafa tekið forystu í 4G þjónustu.
Stefán Sigurðsson segir fyrirtækið hafa tekið forystu í 4G þjónustu. Vísir/GVA
Rekstur Vodafone á Íslandi (Fjarskipta hf.) á öðrum fjórðungi þessa árs skilaði 210 milljóna króna hagnaði sem er aukning um rúmt eitt prósent frá sama tímabili í fyrra.

Heildartekjur námu 3.294 milljónum og jukust um 37 milljónir á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBIDTA, nam 671 milljón króna og lækkaði um átta prósent frá öðrum fjórðungi 2013.

Í tilkynningu Vodafone um uppgjörið segir að kostnaður vegna forstjóraskiptanna í maí, þegar Stefán Sigurðsson tók við af Ómari Svavarssyni, hafi kostað fyrirtækið um 53 milljónir króna. Kostnaðurinn hafi verið gjaldfærður að fullu á tímabilinu.

„Rekstur Vodafone á 2. ársfjórðungi var ágætur, sérstaklega þegar tekið er tillit til mikillar innri vinnu tengdum öryggismálum og ISO 27001 vottun félagsins og kostnaðar sem féll til á tímabilinu vegna forstjóraskipta,“ segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×