Viðskipti innlent

Hagnaður VÍS 1,7 milljarðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigrún Ragna Ólafsdóttir er forstjóri VÍS.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir er forstjóri VÍS. vísir/vilhelm
Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri Vátryggingafélags Íslands, segir að hagnaður félagsins á síðasta ári hafi verið góður, einkum vegna góðrar ávöxtunar af skuldabréfum og hlutabréfum. „Afkoma félagsins af vátryggingastarfsemi var hins vegar undir væntingum á árinu og þá sérstaklega afkoma af eignatryggingum og ökutækjatryggingum,“ segir Sigrún Ragna.

Hagnaður VÍS eftir skatta nam 1.710 milljónum króna á síðasta ári en var 2.154 milljónir árið á undan. Iðgjöld ársins námu rúmum 16 milljörðum króna og voru svipuð árið á undan, en framlegð af vátryggingarekstri var 46 milljónir króna en var 503 milljónir árið á undan. Fjármunatekjur námu 2.439 milljónum króna en voru 2.631 milljón árið á undan.

Stjórn félagsins leggur til að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur kr. 1,03 á hlut. Heildarfjárhæð arðgreiðslunnar er um 2.500 milljónir króna. Arðsákvörðunardagur er 12. mars 2015 sem þýðir að skráðir hluthafar í lok dags 16. mars 2015 (arðsréttindadagur) eiga rétt á arðgreiðslu. Arðleysisdagur er því 13. mars 2015 sem er fyrsti viðskiptadagur eftir arðsákvörðunardag og útborgunardagur er 9. apríl 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×