Viðskipti innlent

Hagnaður Marel jókst um 63 prósent

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel.
Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel. vísir/anton brink
Hagnaður Marel á þriðja ársfjórðungi nam 9,8 milljónum evra (um 1,5 milljarðar króna), en var 6 milljónir evra (918 milljónir króna) á sama tímabili í fyrra. Hagnaðurinn hefur því aukist um 63% á milli ára. Tekjur á þriðja ársfjórðungi námu 187,9 milljónum evra en voru 156,9 milljónir á sama tímabili árið á undan. 

Pantanabók stóð í 169,2 milljónum evra í lok þriðja ársfjórðungs 2014 samanborið við 156,4 milljónir evra í lok annars ársfjórðungs og var 138,3 milljónir evra eftir þriðja fjórðung í fyrra.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir í tilkynningu að þriðji ársfjórðungur hafi verið góður fyrir fyrirtækið. „Við höfum skerpt á markaðssókn samhliða því að taka mikilvæg skref til að auka skilvirkni í rekstri. Sala og tekjur jukust um 20% á milli ára og rekstrarhagnaður hefur farið vaxandi,“ segir hann.

Hann segir að áætlun um að einfalda rekstur gangi eins og gert var ráð fyrir. „Markmiðið er að mæta þörfum viðskiptavina með skilvirkari hætti og draga úr árlegum kostnaði um 20-25 milljónir á tímabilinu 2014-2015,“ segir hann. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×