Viðskipti erlent

Hagnaður Boeing jókst um tæp 38 prósent

Jón Hákon skrifar
Þetta er líkan af Boeing-vél í litum R2-D2 vélmennisins úr Star Wars.
Þetta er líkan af Boeing-vél í litum R2-D2 vélmennisins úr Star Wars. NordicPhotos/afp
Hagnaður Boeing-flugvélaframleiðandans jókst um 38 prósent á fyrsta fjórðungi. Nam hagnaðurinn 1,34 milljörðum dala, eða sem samsvarar 184 milljörðum króna, á fyrsta fjórðungi.

Ástæðan er fyrst og fremst aukin framleiðsla flugvéla sem notaðar eru í borgaralegt flug, segir fréttastofa BBC.

Boeing framleiddi 184 flugvélar á fjórðungnum og jókst framleiðslan um 14 prósent frá sama tímabili árið áður.

Heildartekjur á fjórðungnum jukust um 8 prósent og námu um 3.000 milljörðum króna. Tekjur af smíði borgaralegra flugvéla jukust um átta prósent. Niðurskurður Bandaríkjamanna til varnarmála varð hins vegar til þess að draga úr tekjum vegna flugvéla sem notaðar eru í hernaði.

Boeing býst við því að heildartekjur yfir árið verði í kringum 13 þúsund milljarðar króna. Búist er við því að framleiddar verði milli 750 og 755 borgaralegar flugvélar á þessu ári og tekjurnar af þeim verði í kringum 9 þúsund milljarðar króna.

„Góð rekstrar- og fjárhagsstaða styrkir getu okkar til þess að skila hluthöfum okkar arði á sama tíma og við fjárfestum í tækni og mannauði,“ hefur BBC eftir Jim McNerney, stjórnarformanni Boeing.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×