Viðskipti innlent

Hagnaður á Wall Street dregst saman

Sæunn Gísladóttir skrifar
Hagnaður fjögurra af fimm stærstu bönkum Bandaríkjanna dróst saman á öðrum ársfjórðungi 2016, samanborið við síðasta ár.
Hagnaður fjögurra af fimm stærstu bönkum Bandaríkjanna dróst saman á öðrum ársfjórðungi 2016, samanborið við síðasta ár. Vísir/Getty
Hagnaður fjögurra af fimm stærstu bönkum Bandaríkjanna dróst saman á öðrum ársfjórðungi 2016, samanborið við síðasta ár. Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem hagnaðurinn dregst saman. Hagnaðurinn jókst milli ára hjá Goldman Sachs, hins vegar ber að hafa í huga að lögfræðikostnaður sem nam 1,45 milljörðum dollara á öðrum ársfjórðungi 2015 vó þungt við uppgjörið þá.

Í gær höfðu stærstu sex bankarnir, utan Morgan Stanley, kynnt uppgjör sitt. Hagnaður á hlut minnkaði hjá öllum milli ára, nema Goldman Sachs, og J.P. Morgan, hins vegar voru uppgjörin betri en væntingar höfðu gert ráð fyrir.

Hagnaður á hlut var 36 sent hjá Bank of America samanborið við 43 sent á hlut á sama tímabili fyrir ári. Hagnaður á hlut var 1,24 dollarar hjá Citigroup, samanborið við 1,51 dollara árið áður, hjá Wells Fargo 1,01, samanborið við 1,03 árið áður. Hagnaður á hlut hjá Goldman Sachs var 3,72 dollarar, samanborið við 1,98 dollara árið áður. Hagnaður á hlut hjá J.P. Morgan nam 1,55 dollurum og hækkaði um eitt sent milli ára.

Tekjur Citigroup, Goldman Sachs, og Bank of America drógust saman á ársfjórðungnum miðað við síðasta ár, um 11 prósent, 13 prósent og 7,3 prósent. Tekjur J.P. Morgan og Wells Fargo hækkuðu hins vegar lítillega.

Greiningaraðilar spá því að yfir árið muni tekjur bankanna lækka að meðaltali um 14 prósent. Von er á að tekjurnar muni einungis jafna sig að hluta til árið 2017. Haft er eftir Chris Kotowski, greiningaraðila hjá Oppenheimer & Co., í frétt Bloomberg um uppgjörin, að fram til 24. júní hafi stefnt í góðan fjórðung. Í kjölfar Brexit-kosninganna, þegar ljóst var að Bretar hygðust yfirgefa Evrópusambandið, tóku alþjóðleg hlutabréf hins vegar dýfu. Kotowski lækkaði hagnaðarspá sína fyrir sex stærstu bankana um átta prósent fyrir árið í kjölfar kosninganna.

Haft er eftir Richard Lipstein, mannauðsstjóra á Wall Street, að líkur séu á að bónusar muni lækka hjá öllum bönkunum á árinu vegna Brexit-kosninganna. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×