Erlent

Haglél á stærð við golfbolta dundi á sólstrandargesti

Atli Ísleifsson skrifar
Sólstrandargestir leituðu skjóls hvar sem það var að finna.
Sólstrandargestir leituðu skjóls hvar sem það var að finna. Vísir/AP
Haglél á stærð við golfbolta kom skyndilega yfir sólstrandargesti í vesturhluta Síberíu á laugardaginn var.

Á vef Moscow Times segir að sólstrandargestir í borginni Novosibirsk í Síberíu hafi verið að njóta sólarinnar og 37 gráðu hitans þegar haglél dundi allt í einu á heimamenn.

Að sögn lækkaði hitastigið skyndilega um tuttugu gráður þegar haglélið færðist yfir borgina.

Myndband náðist af atvikinu þar sem fólk, flest klætt í baðfötunum einum klæða, leita skjóls hvar sem það var að finna. Greinilega sést hvernig haglélið skellur á vatnyfirborðið.

Veðurfræðingur segir í samtali við Moscow Times að veðurfyrirbrigðið sem gekk yfir svæðið sé mjög sjaldgæft en það fór víða yfir borgir í Úralfjöllum. „Síðast þegar svona atvik átti sér stað í miðjum júlímánuði var fyrir hundrað árum síðan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×