Lífið

Haft augastað á náminu í þrjú ár

Guðrún Ansnes skrifar
Vísir/Pjetur
Ég þori varla að kaupa mér flugmiðann, enda trúi ég varla að þetta sé að gerast. Þetta er rosalega stór áfangi og ég er ótrúlega spennt,“ segir Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, markaðsstjóri Tjarnarbíós og framleiðandi, sem nýverið fékk þær fregnir að hún væri á leið í draumanámið sitt við Columbia-háskóla í New York. Þess ber að geta að skólinn er elsti háskólinn í New York, stofnaður 1754.

Sameinar ólík áhugasvið Til að toppa það enn frekar hlaut hún hæsta styrk sem hefur verið veittur nemanda við inngöngu í þetta ákveðna nám, sem er við leiklistardeild skólans. „Ég er á leið í meistaranám í stjórnun og framleiðslu sviðslista og var valin inn í bekk sem telur átta til tíu manns,“ segir Hallfríður sem fékk inngöngu í námið eftir umsóknarferli. „Ég skilaði inn ritgerðum og ferilmöppu sem var á við bók um sjálfa mig ásamt ferilskrá með áherslu á störf í leikhúsi, framleiðslu og stjórnun menningar. Ég fór svo í viðtal við valnefnd, fékk að kynnast skólanum og nemendum,“ segir Hallfríður.

Námið miðar að því að útskrifa listræna framleiðendur og stjórnendur á sviði leikhúss. „Námið er líkt og sniðið fyrir mig en þar hlýt ég metnaðarfulla kennslu í sköpun og stjórnun leiksýninga og þekkingu á viðskipta- og lögfræðihlið leikhússins. Þarna næ ég að sameina ólík áhugasvið mín,“ segir Hallfríður sem bætir við að námið sé afar einstaklingsmiðað og að hver og einn velji sínar áherslur.

Sló til og sótti um Hún segist hlakka til að fá að demba sér beint í skapandi verkefni í stóru borginni. „Samhliða náminu mun ég fara í starfsnám og hafa nemendur fengið tækifæri hjá stórum leikhúsum, framleiðendum og leikstjórum. Ég vil fá praktíkina sem er fólgin í að læra með að gera og þarna fæ ég gullið tækifæri samhliða námi,“ segir hún. „Ég hef haft augastað á þessu námi í þrjú ár og alltaf haft á bakvið eyrað að þetta sé draumurinn. Þó fannst mér alltaf óraunverulegt að þetta yrði að veruleika en ég ákvað að slá til og sækja um. Þetta er síður en svo sjálfgefið,“ útskýrir Hallfríður.

Iðar í skinninu Hún segist iða í skinninu eftir að fá að njóta sín í þessum suðupotti ólíkrar menningar og listsköpunar sem New York er. „Nemendur hafa verið að setja upp sýningar víðsvegar um borgina og ég mun örugglega stökkva á þann vagn,“ segir Hallfríður. Spurð um hvort hún ætli sér að leggja bandarískan leikhúsiðnað að fótum sér svarar hún; „Það verður bara að koma í ljós. Mig langar að vinna í alþjóðlegu starfi. Þetta nám heillar því ég vil kynnast leikhúsheimi New York-borgar og öðlast alþjóðlega þekkingu og reynslu en ég hef gríðarmikinn metnað fyrir framtíð leikhúss, lista og kvikmynda hér á landi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×