Íslenski boltinn

Hafsteinn: Héldum haus eftir markið

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hafsteinn skoraði jöfnunarmark ÍBV gegn Stjörnunni. Hér bjargar hann vel.
Hafsteinn skoraði jöfnunarmark ÍBV gegn Stjörnunni. Hér bjargar hann vel. Vísir/Andri Marinó
„Þetta var frábært. Maður missti sig aðeins í ástríðunni en til þess er maður í þessu og þetta var frábær sigur hjá okkur. Við fengum mark á okkur og hefðum alveg getað hætt en við héldum áfram og það skilaði okkur í bikarúrslitin,“ sagði Hafsteinn Briem varnarmaður ÍBV eftir sigur Eyjamanna gegn Stjörnunni í undanúrslitum Borgunarbikarsins. ÍBV er því komið í úrslitaleikinn annað árið.

Liðin mættust í Garðabænum fyrr í sumar og þar unnu heimamenn 5-0 stórsigur. Gengi liðanna undanfarið hefur sömuleiðis verið ólíkt, Stjarnan verið á flugi en Eyjamenn í lægð.

„Það er ekkert grín að koma hingað í Garðabæinn. Við runnum á rassgatið hérna fyrr í sumar og við ætluðum ekki að láta það gerast aftur. Þeir fengu alveg færi, þeir eru sterkir í loftinu og geta skorað mörk upp úr engu eins og sást. Við héldum haus, kláruðum þetta og það er geggjað,“ bætti Hafsteinn við.

ÍBV spilaði í bikarúrslitum í fyrra en beið þá lægri hlut gegn Val. Mun reynslan úr þeim leik hjálpa þeim í ár?

„Talsvert mikið held ég. Það er alltaf í bikarnum að dagsformið skiptir máli og hvernig menn mæta til leiks. Næsti leikur er samt á sunnudag í deildinni gegn Stjörnunni og við verðum að einbeita okkur að þeim leik núna,“ sagði Hafsteinn en liðin tvö mætast á ný í Pepsi-deildinni á sunnudag úti í Eyjum.

FH og Leiknir mætast á laugardag í hinum undanúrslitaleiknum en Hafsteinn vildi ekkert gefa upp um hvort hann ætti einhvern óskamótherja.

„Nei, ég ætla ekki að svara þessu,“ sagði Hafsteinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×