Innlent

Kostnaður við ferðaþjónustu fatlaðra í Hafnarfirði jókst um hundrað prósent

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Haraldur L. Haraldsson ítrekar að þjónusta við fatlaða verði ekki skert en segir kostnaðarauka grafalvarlegt mál.
Haraldur L. Haraldsson ítrekar að þjónusta við fatlaða verði ekki skert en segir kostnaðarauka grafalvarlegt mál. Vísir/GVA
Þegar bornir eru saman reikningar vegna ferðaþjónustu fatlaðra í janúar og febrúar milli áranna 2014 og 2015 þá kemur fram kostnaðaraukning hjá Hafnarfjarðarbæ upp á 100 prósent. Þetta kemur fram í minnisblaði sem lagt var fram í bæjarráði Hafnarfjarðar.

„Þetta er grafalvarlegt mál fyrir okkur,“ segir Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Í janúar 2014 var kostnaður við ferðaþjónustu fatlaðra sjö milljónir króna en árið 2015, eftir að Strætó Bs. hafði tekið við rekstrinum, 14 milljónir.

„Við gerðum ekki ráð fyrir þessum kostnaðarauka í fjárhagsáætlunum okkar. Ég vil leggja áherslu á að við ætlum ekki að skerða þjónustuna, henni verður haldið uppi, hins vegar mun ég skrifa bréf til forstjóra Strætó og óska eftir viðræðum um þetta mál. Þetta samtal þarf að fara fram, það er ekki bara hægt að senda okkur reikninginn. Við erum ekki með opið ávísanahefti,“ segir Haraldur og segir málið að sjálfsögðu einkennilegt því Hafnarfjarðarbær sé einn eigenda Strætó.

Sveitarfélögin gerðu samning við Strætó í maí 2014 um yfirtöku fyrirtækisins á akstursþjónustu fatlaðra. Gerð var sú krafa að ákveðin skilyrði yrðu uppfyllt til þess að farið yrði í samvinnu vegna ferðaþjónustunnar: Heildarkostnaður við þjónustuna og meðalverð fyrir hverja ferð skyldi vera lægra án þess að þjónustan skertist. Markmiðið var sparnaður.

Nú er komið í ljós að niðurstaðan fyrir Hafnarfjarðarbæ er andstæð því sem stefnt var að. Kostnaðaraukningin er svo mikil við breytingarnar á þjónustunni að Haraldi hefur verið falið að taka upp viðræður við Strætó um kostnaðinn, hvað sé gert ráð fyrir að hann verði mikill út árið og hvernig verði farið með kostnaðaraukann.

Í minnisblaði um ástæður kostnaðaraukans segir að svo virðist sem innra skipulag hafi ekki verið nægilega undirbúið með þeim afleiðingum að verkefnið riðlaðist allt. Þetta hafi orsakað „endalausar óhagkvæmari og dýrari lausnir“.

Verkefnið hefur aðeins verið starfrækt í rúma tvo mánuði og reiknar bæjarráð með að kostnaður muni fara lækkandi þegar starfsmenn hafa náð tökum á verkefninu og kerfið verður farið að virka eins og til var ætlast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×