Innlent

Hafnfirðingar bíða enn úrbóta á stórslysakafla

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
BMW-bifreið á leið vestur skall á tveimur flutningabílum. Á stuttum vegarkafla hafa 12 slys orðið að meðaltali á síðustu fimm árum.
BMW-bifreið á leið vestur skall á tveimur flutningabílum. Á stuttum vegarkafla hafa 12 slys orðið að meðaltali á síðustu fimm árum. vísir/vilhelm
Tveir mjög harðir árekstrar urðu á mánudag á Reykjanesbraut við Strandgötu. Þrír voru fluttir á sjúkrahús og er einn talinn alvarlega slasaður.

Þetta er enn eitt slysið sem hefur orðið á aðeins tveggja kílómetra kafla sem nær frá Krísuvíkurgatnamótum að rampi frá Reykjanesbraut niður að Strandgötu. Samkvæmt tölfræði sem Samgöngustofa tók saman hafa þar orðið 62 slys á síðustu fimm árum en ekki eru komin gögn fyrir slys sem þarna urðu frá nóvember og desember á síðasta ári.

Um 10 þúsund bílar fóru þarna um á mánudag samkvæmt teljara Vegagerðarinnar, og var þó vegurinn lokaður í nokkurn tíma vegna slyssins.

Margrét Gauja Magnúsdóttir
Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg í ár. Þar er einnig gert ráð fyrir að tvöfalda Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi suður í Hvassahraun á fyrsta og öðru tímabili en samgönguáætlun nær til ársins 2022. Á aðalskipulagi Hafnarfjarðar er gert ráð fyrir færslu brautarinnar við álverið í Straumsvík.

Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, segir að bærinn hafi tekið frá peninga til að standa straum af kostnaði við gerð mislægu gatnamótanna.

„Þarna verður að fara í framkvæmdir á þessu ári því annars endar þetta með stórslysi. Ég fæ alltaf sting í hjartað þegar það verður bílslys í bænum og sérstaklega á þessum gatnamótum sem hafa verið umdeild svona lengi og bæjarbúar hafa öskrað á aðgerðir í mörg ár. Ég vona svo innilega að fólkið sem þarna slasaðist sé í lagi.“

Margrét segir að bærinn hafi ályktað í mörg ár um úrbætur á Reykjanesbrautinni og í kjördæmavikum með þingmönnum sé þetta mál númer eitt á dagskrá.

„Við höfum verið að leggja áherslu á þetta mál því það þarf að kýla þetta í gegn. Umferðin um Reykjanesbrautina hefur margfaldast með ferðamönnum og það það þarf að hafa þennan kafla í lagi,“ segir Margrét Gauja. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×