Viðskipti innlent

Hafnarfjarðarbær vill íshöll

Haraldur Guðmundsson skrifar
Samtökin vilja auka vitund um afleiðingar þess að ís og snjóhula fer ört hopandi.
Samtökin vilja auka vitund um afleiðingar þess að ís og snjóhula fer ört hopandi.
„Hafnarfjarðarbær hafði samband við okkur að fyrra bragði til að leita eftir hugmyndum að sýningu tengdri jöklum sem þróaðist út í samstarf um þekkingarsetur um jöklana, snjó og ís,“ segir Páll Ásgeir Davíðsson, framkvæmdastjóri alþjóðlegu félagasamtakanna Vox Naturae.

Samtökin hafa óskað eftir lóð í Hafnarfirði undir íshöll og sýningarskála. Þar vill Vox Naturae nota nýjustu tækni til að fræða ferðamenn og aðra um jöklana, snjó og ís.

„Gestir hallarinnar eiga þar eftir að koma inn í 360 gráðu upplifun. Við erum að að vinna þetta með erlendum listamönnum sem hafa sérhæft sig í þessari tækni,“ segir Páll.

Bæjaryfirvöld hafa falið skipulags- og byggingarsviði bæjarins að ræða við samtökin um staðsetningu íshallarinnar. Einnig liggur fyrir viljayfirlýsing á milli Vox Naturae og bæjarins um þróun og uppbyggingu verkefnisins. Í yfirlýsingunni segir að íshöllin eigi að auka komu ferðamanna til bæjarins.

„Og styrkja stöðu Íslands sem mögulegs ráðstefnuvettvangs um málefni tengd snjó og ís,“ segir Páll.

„Þegar staðsetningin verður komin þá förum við í að leita að fjármagni í verkefnið og við munum meðal annars leita til erlendra styrktaraðila.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×