Innlent

Hafnarfjarðarbær neitar að taka þátt í rekstrarkostnaði

kristjana björg guðbrandsdóttir skrifar
Enn ríkir óvissa um framtíð fasteignanna við Suðurgötu sem áður hýstu St. Jósefsspítala.
Enn ríkir óvissa um framtíð fasteignanna við Suðurgötu sem áður hýstu St. Jósefsspítala. Fréttablaðið/Pjetur
Hafnarfjarðarbær deilir enn við fjármála- og efnahagsráðuneytið um framtíð og rekstur húsnæðis St. Jósefsspítala sem hefur nú staðið auður í rúm þrjú ár.

Hafnarfjarðarbær vill fá fullt forræði yfir fyrrverandi fasteignum St. Jósefsspítala sem eru Suðurgata 41 og 44.

Umræddar fasteignir eru 85 prósent í eigu ríkisins og 15 prósent í eigu sveitarfélagsins.

Eftir að velferðarráðuneytið féll frá áformum um nýtingu húsnæðisins í þágu heilbrigðisþjónustu í byrjun ársins 2014 hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið lagt áherslu á að þær verði seldar.

Í lok síðasta árs samþykkti Hafnarfjarðarbær að spítalinn yrði auglýstur til sölu hjá Ríkiskaupum en með þeim skilyrðum að þar yrði að vera áfram heilbrigðisstarfsemi. Fá tilboð og lág bárust í húsin og var þeim öllum hafnað. Nú vill ráðuneytið auglýsa húsin aftur til sölu og fer að auki fram á að sveitarfélagið taki þátt í að greiða rekstrarkostnað af spítalanum þar til leyst verður úr framtíðareignarhaldi hans.

Ríkið hefur gætt eignanna og sinnt rekstrarkostnaði undanfarin ár en Hafnarfjarðarbær neitað að taka þátt.

Í bréfi frá ráðuneytinu til bæjarstjórnar segir að á meðan eignirnar standi auðar og ónotaðar muni þær óhjákvæmilega grotna niður og rýrna að verðgildi auk þess sem þær verði lýti á umhverfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×