Erlent

Hafði hótað því að myrða fatlaða áður

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Ungur maður sem myrti minnst 19 manns á heimili fyrir fólk með geðræn vandamál í Japan í gær, hafði lýst ætlunum sínum. Satoshi Uematsu hafði í febrúar farið með handskrifað bréf til þings Japan þar sem hann hótaði að drepa hundruð manna sem ættu við geðræna fötlun að stríða.

Hann var á sjúkrahúsi í tæpar tvær vikur, en var svo sleppt aftur.

Uematsu var fyrrum starfsmaður heimilisins þar sem hann myrti fólk á aldrinum 19 til 70 ára. Eins og áður segir létu minnst 19 lífið en 25 eru særðir og þar af 20 alvarlega. Eftir árásina tísti gaf hann sig fram til lögreglu.

Um er að ræða versta fjöldamorð Japan í áratugi.

Hafði lýst árásum sem þessari

Í áðurnefndu bréfi sagðist Uematsu geta myrt 470 fatlaða einstaklinga í aðgerð sem hann kallaði „byltingu“. Hann lýsti árásum á tvö heimili og sagði að hann myndi síðan gefa sig fram við lögreglu.

Þar að auki fór hann fram á í bréfinu að hann yrði dæmdur saklaus vegna geðrænna vandamála og að hann fengi um fimm milljónir dala, um 600 milljónir króna, til þess að gangast undir lýtaaðgerðir og lifa eðlilegu lífi.

Í bréfinu sagði hann að tilgangur árásarinnar væri að blása nýju lífi í efnahag heimsins og að koma í veg fyrir þriðju heimstyrjöldina. 


Tengdar fréttir

Nítján látnir eftir hnífaárás í Japan

Að minnsta kosti nítján eru látnir og á þriðja tug særðir eftir hnífaárás sem gerð var á heimili fyrir fólk með geðræn vandamál í japönsku borginni Sagamihara í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×