Innlent

Hafði ekki skilað læknisvottorði

fanney birna jónsdóttir skrifar
Maðurinn sem grunaður er um að hafa smitað konur af HIV verður í gæsluvarðhaldi til 20. ágúst.
Maðurinn sem grunaður er um að hafa smitað konur af HIV verður í gæsluvarðhaldi til 20. ágúst. Fréttablaðið/Pjetur
Maðurinn sem grunaður er um að hafa smitað konur af HIV-veirunni var líklegast ekki búinn að gangast undir læknisskoðun hér á landi áður en hann var handtekinn af lögreglu. Rúv.is greindi frá þessu í gær.

Maðurinn sem er hælisleitandi kom til landsins í ágúst í fyrra og er mál hans til rannsóknar hjá lögreglu. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. ágúst og er grunaður um brot gegn hegningarlögum með því að hafa af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnað lífi eða heilsu annarra í augljósan háska. Viðurlög við broti af þessu tagi er allt að fjögurra ára fangelsisvist.

Lögmaður mannsins segir hann halda því fram að honum hafi ekki verið kunnugt um að vera smitaður af veirunni.

Í samtali við mbl.is segist Haraldur Briem, fráfarandi sóttvarnalæknir, ekki vita til þess að maðurinn hafi skilað inn læknisvottorði fyrr en málið kom upp. Allir sem sæki um dvalarleyfi þurfi að skila inn vottorði en engar nákvæmar dagsetningar séu á því hvenær menn eigi að mæta í skoðun og þess háttar. Heilbrigðisyfirvöld hafi ekki tök á því að færa fólk í læknisskoðun þegar í stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×