Lífið

Hafa verið öflug og dugleg í 40 ár

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Þórunn Björnsdóttir hefur stjórnað kórnum í 40 ár og sést hér með hópi af hressum kórkrökkum.
Þórunn Björnsdóttir hefur stjórnað kórnum í 40 ár og sést hér með hópi af hressum kórkrökkum. Vísir/Aðsend
„Við erum sem sagt að halda upp á 40 ára starfsafmæli kórsins. Við erum búin að vera mjög öflug og dugleg í 40 ár. Það koma þarna fram 300 krakkar. Það sem mun einkenna þessa tónleika er að við munum byggja þetta á mikilli sönggleði. Við erum með valinkunna hljóðfæraleikara og frábæra gesti með okkur – Emilíönu Torrini, Gissur Pál og Siggu Eyrúnu. Krakkarnir hafa verið að æfa mjög stíft,“ segir Þórunn Björnsdóttir kórstjóri sem mun stjórna kórnum á morgun ásamt Álfheiði Björgvinsdóttur. Skólakór Kársness hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi þessi 40 ár sem hann hefur verið starfandi og margir þekktir tónlistarmenn sem hafa stigið sín fyrstu spor innan kórsins.

„Á efnisskránni verða lög sem hafa notið mikilla vinsælda í kórnum. Þetta eru lög sem hafa verið óskalög. Ég gerði óformlega könnun meðal fyrrverandi nemenda minna og efnisskráin byggist svolítið á því sem þau langar til að heyra, lög sem þau sungu inn í hjörtu landsmanna á sínum tíma. Drengjakórinn mun ráðast á karlakóraperlurnar eins og Hraustir menn og Brennið þið vitar. Stelpurnar með verða með mjög hressileg gospellög. Þetta verða allt hressileg sumarlög og bara skemmtilegt, bæði íslensk og erlend lög.

Við ætlum að enda þetta með samsöng þar sem við munum meðal annars syngja Kópavogslagið og enda þetta með Maístjörnunni, sem hefur fylgt okkur lengi. Við hlökkum mikið til, það verður mikil upphefð fyrir þessa krakka að fá að koma fram í Hörpu. Það er einstakt fyrir svona grunnskólakór að leigja svona stórt og glæsilegt hús. Við erum svo mörg og eigum svo marga góða að, við getum gefið börnunum tækifæri til að koma fram í svona stóru og flottu húsi.“

Tónleikarnir fara fram í Eldborgarsal Hörpu sunnudaginn 22. maí klukkan 1400. Miðaverð er frá 1.500 til 3.000 króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×