Erlent

Hafa útvegað uppreisnarmönnum 45 tonn af skotfærum

Samúel Karl Ólason skrifar
Úr þjálfunarbúðum sýrlenskra uppreisnarmanna.
Úr þjálfunarbúðum sýrlenskra uppreisnarmanna. Vísir/AFP
Bandaríkin vörpuðu í dag skotvopnum og skotfærum til uppreisnarmanna sem berjast gegn Íslamska ríkinu í norðurhluta Sýrlands. Allt í allt var rúmum 45 tonnum af birgðum varpað úr flutningavélum og Elissa Smith, talsmaður varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að vopnin hafi lent í réttum höndum.

Ákveðið var fyrir helgi að hætta þjálfun uppreisnarmanna gegn ISIS í Sýrlandi, þar sem verkefnið virðist hafa misheppnast algerlega. Þess í stað verður fjármunum varið í að útvega uppreisnarmönnum sem þegar berjast gegn Íslamska ríkinu vopn. Þeir uppreisnarmenn sem njóta stuðnings Bandaríkjanna og bandamanna þeirra hafa verið skoðaðir í bak og fyrir samkvæmt Elissa Smith.

Hún vildi þó ekki fara nánar út í það hvaða hópar hefðu fengið umrædd vopn, né hvar þeim hafi verið varpað úr lofti. Uppreisnarhópar sem áður hafa fengið ný vopn frá Bandaríkjunum hafa orðið skotmörk samtaka íslamista í Sýrlandi.

Hér má sjá stöðu mála í Sýrlandi síðustu daga.Vísir/GraphicNews
Vopnaðar sveitir Kúrda í Sýrlandi, sem kallast YPG, tilkynntu í dag að þeir ætluðu að mynda bandalag við nokkra smáa hópa sýrlenskra uppreisnarmanna. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa gefið í skyn að uppreisnarhópar sem starfa með Kúrdum gætu fengið vopn og skotfæri, fyrir árás á borgina Raqqa, höfuðborg Íslamska ríkisins.

Kúrdum hefur gengið vel að berjast gegn ISIS með stuðningi Bandaríkjanna og hafa þeir skapað sér stórt sjálfsstjórnarsvæði í norðausturhluta landsins.

Rússar herða árásir

Rússar hafa hert loftárásir sínar gegn uppreisnarhópum í norðvesturhluta landsins þar sem sýrlenski herinn hefur einnig gert árás. Varnamálaráðuneyti Rússlands segist hafa gert loftárásir gegn 53 skotmörkum sem tilheyrðu Íslamska ríkinu í Homs héraði, Hama Latakia og Idlib í dag.

ISIS er þó einungis með takmarkaða viðveru í Hama héraði og enga í hinum héruðunum.

Þá segjast Rússar hafa handtekið hóp manna í dag sem unnu að skipulagningu hryðjuverka í Rússlandi. Samkvæmt TASS fréttaveitunni segja yfirvöld í Moskvu að einhverjir hinna handteknu hafi farið í gegnum þjálfunarbúðir Íslamska ríkisins í Sýrlandi.


Tengdar fréttir

Þúsundir mótmæla árásinni

Stjórnvöld í Tyrklandi telja Íslamska ríkið hafa staðið að árás á útifund í Ankara um helgina. Kúrdar segja ábyrgðina hjá stjórnvöldum. Loftárásum haldið áfram þrátt fyrir einhliða vopnahlé af hálfu Kúrda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×