Handbolti

Hafa tapað síðustu fimm leikjum með 42 mörkum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Birkir Hálfdánsson og félagar eru í vondum málum.
Arnar Birkir Hálfdánsson og félagar eru í vondum málum. vísir/stefán
Fram sá aldrei til sólar þegar liðið tók á móti Stjörnunni í 13. umferð Olís-deildar karla í gær.



Stjörnumenn komust í 0-6, 2-13 og leiddu 6-19 í hálfleik. Á endanum munaði 10 mörkum á liðunum, 20-30.

Fram hefur nú tapað fimm leikjum í röð, þar af síðustu fjórum mjög illa.

Fram tapaði með fjórum mörkum fyrir Val (34-30), átta mörkum fyrir ÍR (24-32), sjö mörkum fyrir ÍBV (31-24), 13 mörkum fyrir FH (39-26) og 10 mörkum fyrir Stjörnunni (20-30).

Frammarar hafa því tapað síðustu fimm leikjum sínum með samtals 42 mörkum, eða 8,4 mörkum að meðaltali í leik.

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, lét sína menn heyra það í viðtali við Vísi eftir útreiðina gegn Stjörnunni í gær.

„Þetta var hræðilegt í alla staði. Allt sem við höfðum unnið að í vikunni fór á fyrstu tíu mínútunum. Mínir menn þurfa bara gjörsamlega í taka sig saman í andlitinu, þetta er ekki boðlegt. Ég fer og næ bara í þriðja flokkinn ef þetta heldur svona áfram,“ sagði Guðmundur Helgi sem gerði frábæra hluti með Fram á síðasta tímabili og kom liðinu í undanúrslit um Íslandsmeistaratitilinn.

Þrátt fyrir fimm tapleiki í röð er Fram í 9. sæti Olís-deildarinnar með átta stig, þremur stigum frá fallsæti.

Fram mætir Selfossi á útivelli í síðasta deildarleik sínum fyrir EM-hléið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×