Erlent

Hafa sótt hratt fram í Aleppo

Samúel Karl Ólason skrifar
Stjórnarliði horfir yfir Aleppo.
Stjórnarliði horfir yfir Aleppo. Vísir/AFP
Stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, hafa tekið um þriðjung af yfirráðasvæði uppreisnarmanna í borginni Aleppo um helgina. Sóknin hefur verið studd með fjölmörgum loftárásum og þúsundir almennra borgara hafa flúið.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að stjórnarherinn hafi tekið um 40 prósent af yfirráðasvæði uppreisnarmanna.

Um er að ræða mikið högg gegn uppreisninni gegn Assad, en sóknin er enn yfirstandandi. Undanfarnar tvær vikur hafa loftárásir gegn uppreisnarmönnum verið mjög umfangsmiklar en áætlað er að um 8.000 uppreisnarmenn séu í borginni og um 250 þúsund borgarar.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni segja uppreisnarmennirnir að stuðningsmenn þeirra í Mið-Austurlöndum, Evrópu og Ameríku hafi yfirgefið þá. Takist Assad að reka uppreisnarmennina og þá vígamenn sem þar eru, úr Aleppo væri um einn stærsta hernaðarsigur hans að ræða frá því að styrjöldin hófst í Sýrlandi árið 2011.

Flestir þeirra þúsunda sem hafa flúið frá Aleppo hafa ferðast í vestur á yfirráðasvæði stjórnvalda og til norðurs inn á svæði sem Kúrdar stjórna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×