Viðskipti innlent

Hafa milljarða í tekjur af ferðum um hálendið

ingvar haraldsson skrifar
Hálendishagkerfið veltir milljörðum króna á ári hverju.
Hálendishagkerfið veltir milljörðum króna á ári hverju. Fréttablaðið/Vilhelm
Tekjur innlendra ferðaþjónustufyrirtækja af útivistarferðum hafa margfaldast og nema milljörðum árlega. Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, bendir á að fyrir áratug hafi tekjur FÍ verið undir 100 milljónum króna á ári en nálgist nú 500 milljónir.

Tekjur Íslenskra fjallaleiðsögumanna, sem sérhæfa sig í gönguferðum, námu 1,7 milljörðum króna í fyrra. Elín Sigurveig Sigurðardóttir framkvæmdastjóri segir fyrirtækið hafa vaxið um minnst 14 til 17 prósent á ári síðustu ár. Yfir 95 prósent viðskiptavinanna eru erlendir ferðamenn.

Þá námu tekjur Ferðakompanísins sem býður ýmiss konar útvistarferðir 1,3 milljörðum króna. Tekjur Arctic Adventures af gönguferðum nema nokkur hundruð milljónum króna á ári að sögn Styrmis Þórs Bragasonar, framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu. Heildartekjur félagsins nema um tveimur milljörðum króna. Fyrrgreind fyrirtæki eru aðeins fáein þeirra fyrirtækja sem sinna skipulögðum útivistarferðum.

Páll segir álagið á vinsælustu gönguleiðirnar gífurlegt. „Við erum farin að sjá verulega stóra hópa og mikla umferð og finna hvernig innviðirnir á stærstu dögunum titra af álagi.“ Þá séu mörg mjög aðkallandi vandamál sem einfalt ætti að vera að leysa.

Styrmir segir hins vegar hægt að koma mun fleirum á Laugaveginn sé skipulag í lagi. Áætlað sé að um 800 þúsund manns fari gullna hringinn á ári en um 10 þúsund Laugaveginn. Til bóta væri ef allir gengju Laugaveginn í sömu átt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×