Viðskipti innlent

Hafa lokið fimmtíu milljóna fjármögnun til wasabi ræktunar

Sæunn Gísladóttir skrifar
Johan Sindri Hansen og Ragnar Atli Tómasson standa að baki Wasabi Iceland.
Johan Sindri Hansen og Ragnar Atli Tómasson standa að baki Wasabi Iceland. Mynd/aðsend
Nýsköpunar fyrirtækið Wasabi Iceland hefur klárað um fimmtíu miljóna króna fjármögnun með einkafjárfestum til þess að koma af stað fyrstu wasabi ræktuninni á Íslandi. Áður hafði Arion banki fjárfest í fyrirtækinu í gegnum þátttöku þess í Startup Reykjavík.

Fyrirtækið hyggst rækta wasabi plöntur fyrir heimamarkað og útflutning. Wasabi plantan er fágæt og er afar verðmætt hráefni í matargerð. Fyrirtækið var stofnað árið 2015 af þeim Johan Sindra Hansen og Ragnari Atla Tómassyni en þeir eru útskrifaðir með BS próf úr vélaverkfræði og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Sjá einnig: Beint úr verkfræði í wasabi

Hugmyndin um að rækta wasabi á Íslandi kviknaði meðan þeir voru enn í námi og unnu þeir úttekt á slíkri ræktun sem lokaverkefni í verkfræðinni. Sumarið 2015 var Wasabi Iceland eitt af tíu nýsköpunarfyrirtækjum sem valið var inn í viðskiptahraðalinn Startup Reykjavík á vegum Icelandic Startups og Arion banka. Fyrirtækið hefur haft aðsetur í Húsi Sjávarklasans úti á Granda síðan í haust en tenging er milli sjávarútvegsins og wasabi jurtarinnar í gegnum sushi réttinn. Ræktun mun fara fram í gróðurhúsum Barra á Egilsstöðum.

Gert er ráð fyrir fyrstu uppskeru árið 2017 og mun fyrsta íslenska wasabiið verða á boðstólnum á Fiskmarkaðnum og Grillmarkaðnum, en samningur þess efnis var undirritaður á dögunum.


Tengdar fréttir

Beint úr verkfræði í wasabi

Verkfræðingarnir sem ætla að koma Íslandi á kortið fyrir gott wasabi og leita nú logandi ljósi að hinum fullkomna stað til að hefja ræktun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×