Skoðun

Hafa íslenskir læknar efni á fjölskyldulífi?

Íris Ösp Vésteinsdóttir skrifar
Fáir læknar gerast svo hugrakkir að eignast börn á námsárunum. Fæstir hafa möguleika á annarri framfærslu en námslánum og það þarf mikla staðfestu til að sinna uppeldi meðfram námi sem krefst tæplega 200 stunda spítalaviðveru hvern mánuð síðustu námsárin fyrir utan heimalestur.

Við útskrift eru flestir læknar nær þrítugu en tvítugu. Síðustu 10 ár hafa konur verið 55% nemenda í læknadeild HÍ og sem stendur eru konur rúmlega 60% þeirra Íslendinga sem læra læknisfræði erlendis. Þær sem ákveða að fresta barneignum þar til að námi loknu hafa því oft ekki mörg ár eftir af kjöraldri til þess. Sér í lagi ef börnin eiga að verða fleiri en eitt.

Læknisstarfið krefst ýmiss líkamlegs álags og langar vaktir leggjast ofan á dagvinnu. Verkefnin eru mismunandi, allt frá því að hlaupa sjúkrahúsgangana á enda og aðstoða við endurlífgun, standa og aðstoða í langri aðgerð eða jafnvel rjúka í sjúkrabíl upp á háheiði um miðjan vetur. Sumar konur verða ófærar um slík líkamleg átök snemma á meðgöngu. Er það ásættanlegt fyrir sjúkling að vakthafandi læknir geti ekki framkvæmt nógu skilvirkt hjartahnoð? Er það ásættanlegt að læknir á vakt hætti sínu ófædda barni til að hjálpa öðrum?

Eldri kollegar stóðu oft vaktina fram að settum degi en flestar þeirra vara okkur yngri við því og það er orðið algengara að kvenlæknar hætti fyrr töku vakta á meðgöngu. Eftir situr þá dagvinna virka daga frá 8-16 (sem hjá flestum stéttum teldist 100% starf). Það að hætta töku vakta er tvíeggja sverð. Það veldur tímabundið auknu álagi á aðra lækna innan sama vinnustaðar og vaktirnar skapa tekjurnar. Án þeirra eru launin 340.743 kr. fyrir kandídat og 370.485 kr. fyrir lækni með lækningaleyfi eða 254.692 kr. og 272.898 kr. eftir skatt.* Grunnviðmið fyrir einstakling í sambúð með eitt barn, án bíls og húsnæðis er 232.916 kr. **

Hefur áhrif á mönnun

Annað sem flækir málið er að almennir læknar vinna í stuttum tímabundnum ráðningum. Þetta getur haft áhrif á rétt læknis til fæðingarorlofs og verður til þess að margir almennir læknar fara samningslausir í fæðingarorlof og tapa hlunnindum fastráðningar s.s. réttindum til veikinda, sumarfrís o.fl. Þegar þetta tvennt er skoðað saman þá er skiljanlegt að það færist í aukana að læknar í fæðingarorlofi lendi í erfiðleikum til dæmis með afborganir námslána.

Það að hluti kvenlækna hætti að taka vaktir á meðgöngu og flestar taki sér lengra fæðingarorlof en bekkjarbræður þeirra hefur nú þegar áhrif á mönnun. Kollegar eiga ekki að sitja eftir í súpunni þegar einn hverfur frá og neyðast til aukavakta án þess að ráða nokkru um það. Þetta snýst um almenna kröfu allra lækna að geta átt meiri tíma með fjölskyldu, vinum og áhugamálum. Það er ekki ásættanlegt að einungis með mikilli vaktavinnu ofan á dagvinnu geti læknar haft í sig, á og afgang til afborgunar námslána.

Spá Læknafélags Íslands telur að á næstu 10 árum muni starfandi læknum fækka um 300 meðan þjóðinni fjölgar. Gæti þetta verið enn ein ástæða landflótta lækna? Höfum við efni á því?

*Reiknað af skattur.is gert ráð fyrir einstakling, og greitt í lífeyrissparnað. Ekki er greitt í stéttarfélag miðað við þennan útreikning.

**Reiknivél velferðarráðuneytis, velferdarraduneyti.is.




Skoðun

Sjá meira


×