Enski boltinn

Hafa ekki unnið á Carrow Road síðan þegar Guðni Bergs skoraði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Bergsson fagnar hér sem leikmaður Bolton.
Guðni Bergsson fagnar hér sem leikmaður Bolton. Vísir/Getty
Norwich City tekur á móti Bolton í ensku b-deildinni í kvöld en Arnar Björnsson mun lýsa leiknum beint á Stöð Sport 2 og hefst útsendingin klukkan 19.45.

Norwich City er í sjötta sæti og í baráttunni um sæti í ensku úrvalsdeildinni en það gengur verr hjá Bolton-liðinu sem hefur aðeins náð í 11 stig í fyrstu 14 leikjum sínum sem skilar liðinu í fallsæti.

Neil Lennon tók við knattspyrnustjórastöðunni hjá Bolton á dögunum og liðið hefur unnið 2 af 3 síðustu leikjum sínum. Þetta lítur því betur út en í upphafi og Bolton-liðið er til alls líklegt í þessum leik á Carrow Road í kvöld.

Norwich hefur unnið tvo síðustu leiki liðanna á Carrow Road og Bolton hefur ekki unnið á vellinum síðan í nóvember 2000.

Það var merkilegur 2-0 sigur hjá Bolton því íslenski miðvörðurinn Guðni Bergsson skoraði seinna markið með þrumuskalla á fjærstöng á 73. mínútu leiksins. Fyrra mark Bolton skoraði Michael Ricketts.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×