Innlent

Hafa ekki reynt að fá Alfreð framseldan

Samúel Karl Ólason skrifar
Alfreð Örn Clausen.
Alfreð Örn Clausen. MYND/EMBÆTTI SAKSÓKNARA SAN BERNARDINO
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ekki reynt að fá Íslendinginn Alfreð Clausen framseldan, en enginn framsalssamningur er í gildi á milli ríkjanna. Snúi Alfreð aftur til Bandaríkjanna verður hann hins vegar handtekinn, en hann er grunaður um aðild að umfangsmiklu svikamáli. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Lýst var eftir Alfreð í Bandaríkjunum í mars 2015 vegna fjársvikamála, þjófnaðar og peningaþvættis. Tveir aðrir í málinu hafa nýverið verið dæmdir í fangelsi.

Sjá einnig: Alfreð Örn lýsir yfir sakleysi sínu

Í skriflegu svari til RÚV segir John Vega, yfirlögregluþjónn hjá saksóknaranum í San Bernardino, að embættinu sé mikilvægt að ná fram dómi yfir Alfreð. Hann og samverkamenn hans hafi brotið gegn fólki sem hafi verið viðkvæmt fyrir svikum. Flestir hafi ekki talað ensku og hafi átt erfitt með að láta vita af meintum brotum þeirra.

Sjá einnig: Alfreð áður sakaður um fjársvik: Sveik fé úr fólki með hálsbindasölu

Samkvæmt frétt CBS í Los Angeles frá 2015 segir lögreglan að Alfreð, Stephen Lyster Siringoringo og Joshua Michael Cobb hafi stolið rúmum 44 milljónum dala frá fórnarlömbum sínum. Það var fólk sem fékk lögmannastofu þeirra til að breyta lánum sínum.

Fólkinu hafi verið lofað að breytingarnar yrðu framkvæmdar af sérfræðingum innan fyrirtækisins, en hins vegar hafi lánin verið veitt til þriðja aðila sem hafi breytt reikningum þeirra og rukkað fólkið mánaðarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×