Innlent

Hættulegir hundar í Laugardal: Gægjast undir grindverk og glefsa í vegfarendur

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hundarnir eru tveir og eru lausir í garðinum. Hundur Karenar, til hægri, var skelkaður eftir atvikið og faldi sig undir rúmi.
Hundarnir eru tveir og eru lausir í garðinum. Hundur Karenar, til hægri, var skelkaður eftir atvikið og faldi sig undir rúmi. Mynd/Karen
„Hundurinn okkar var náttúrulega bara skíthræddur,“ segir Karen Eik Þórsdóttir en hún lenti í leiðinlegu atviki fyrr í vikunni þegar husky hundur sem var laus í garði stakk höfðinu undir grindverk og náði glefsaði í hundinn hennar, beit í hann og hélt honum föstum. Hundarnir eru tveir og eru alla jafna lausir í garðinum við húsið. Fjölmargir íbúar í Laugardalnum kveðast hafa lent í hundunum og telja að grípa þurfi til aðgerða. 

Karen var úti að ganga með hundinn ásamt kærastanum sínum þegar atvikið átti sér stað. „Kærastinn minn hleypur að og reynir að losa hundinn okkar en huskyinn rígheldur í hann. Hann kippir sér ekkert upp við það að við séum öskrandi á hann og að kærastinn minn sé að lemja á trýnið hans svo hann hætti.“

Að lokum náði Karen að smeygja fætinum undir kjaft dýrsins og sparka í hann. „Þá sleppir hann.“ Hundur Karenar er lítill tibet spaniel og þegar hún tekur hann upp vælir hann. „Kærastinn minn reynir að ógna hundunum svo þeir hörfi en þá ætla þeir bara að ráðast á hann.“



Dauðskelkaður hundur 


Eigandi hundanna verður var við lætin og kemur út úr húsinu. „Við segjum honum að hundurinn hans hafi verið að bíta hundinn okkar. Hann segir að það geti nú bara alls ekki verið því hann sé innan girðingarinnar. Og hundarnir hans séu ekki að fara bíta neinn,“ útskýrir Karen. Þrátt fyrir útskýringar parsins lætur eigandinn sér ekki segjast og fer aftur inn í hús sitt.

Hundur Karenar slasaðist sem betur fer lítið við atvikið en var mjög skelkaður. „Þegar við komum heim var hann bara undir rúmi og vildi ekkert koma fram. Svo sofnaði hann og byrjaði að urra og gelta í svefni.“

Karen bendir á að hundurinn hennar sé mjög loðin svo að husky-hundurinn náði aðeins taki á feldi dýrsins. „Ef þetta hefði verið önnur og minna loðin tegund hefði hann bara dáið.“ 

Karen með hundinn sinn sem slasaðist sem betur fer ekki alvarlega.Mynd/Karen
Málið ekki einsdæmi

Karen fór til lögreglu sem bókaði atvikið eftir að hafa verið hvött af því af nágrönnum sínum. Hún setti sögu sína inn á hverfishópinn sinn á Facebook. Þar kemur í ljós að margir hafa tekið eftir hundunum og lent í því að glefsað sé í hunda þeirra.

„Bróðir vinkonu minnar sem á hund fór um daginn út að ganga og þá glefsuðu þeir í hundinn hans, mamma hans fór líka og þá gerðist það sama. Frænka mín sem býr í hverfinu passar stundum stóran schaeffer hund, hún er hætt að labba framhjá þessu húsi af því að þeir ætla bara í hann,“ segir Karen.

Við innlegg Karenar í hverfishópinn deila fleiri reynslusögu sinni. Þannig segir ein: „Við höfum líka lent í þessum hundum og þessi einmitt bitið okkar hund líka. Mér finnst þeir alltaf að verða verri með tímanum, áður var ég ekki smeyk við þá en núna stendur mér alls ekki á sama að labba þarna framhjá. Bíð bara eftir því að þeir stökkvi yfir á eftir manni einn daginn. Hef verið að pæla að tilkynna eigendurna.“

Annar segist oft hafa heyrt um hundana og skilur ekki í því að ekki sé búið að tilkynna þá.

„Ég sá gamla konu sem var sest á þessum bekk um daginn og voru hundarnir að gelta á hana. Þeir hafa líka verið að reyna að stökkva á stelpunni minni þegar við löbbuðum úr leikskólanum,“ segir enn annar íbúi á svæðinu. Hundaeigandi deilir reynslu sinni á þræðinum en hún var í göngu með tvo hunda og náði husky-hundurinn að glefsa í hennar hund. 

Heilbrigðiseftirlitið er meðvitað um málið og þeir sem hafa lent í samskonar atviki eru hvattir til þess að tilkynna það til hundaeftirlitsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×