Erlent

Hættuástand vegna kúlufiska

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ef ítrustu varúðar er ekki gætt getur reynst hættulegt að leggja sér kúlufiska til munns.
Ef ítrustu varúðar er ekki gætt getur reynst hættulegt að leggja sér kúlufiska til munns. Vísir/afp
Borgaryfirvöld í japönsku borginni Gamagori hafa lýst yfir hættuástandi eftir að í ljós kom að fiskverkandi þar í borg hafði sent frá sér eitraða kúlufiska.

Kúlufiskur þykir mikið lostæti í Japan en ef hann er ekki verkaður rétt og lifrin skorin í burtu, getur hann verið bráðdrepandi. Nú virðist sem fimm pakkar af eitruðum kúlufiski hafi verið seldir í stórmarkaði í borginni.

Þrír hafa þegar fundist áður en eigendur innbyrtu fiskinn en tveir pakkar eru enn ófundnir. Árlega veikjast þónokkrir í Japan eftir að hafa gætt sér á kúlufiski og dauðsföll eru nokkur á hverju ári.

Borgaryfirvöld í Gamagori hafa sett neyðaráætlun í gang og hvatt borgarbúa til að skila inn öllum pakkningum af kúlufiskum. Í samtali við breska ríkisútvarpið segir borgarstarfsmaður að viðvörunum til íbúa sé reglulega útvarpað í viðvörunarkerfi borgarinnar.

Kúlufiskur nýtur mikilla vinsælda á veturna og er alla jafna notaður í súpur eða snæddur hrár eins og sashimi. Í lifur, eggjastokkum og skráp fisksins má finna snefil af eitrinu tetrodotoxin og af þeim sökum þarf sérstaka þjálfun og leyfi til að verka kúlufiska. Ekkert mótefni er við eitrinu.

Tetrodotoxin hefur áhrif á miðtaugakerfið og lamar það fyrst munninn, því næst restina af líkamanum og leiðir að lokum til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×