Erlent

Hættir að birta myndir af árásarmönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Forsvarsmenn fjölmiðla í Frakklandi hafa margir hverjir ákveðið að hætta að birta myndir af hryðjuverka- og árásarmönnum þar í landi. Óttast væri að þeim væri gert of hátt undir höfði svo aðrir einstaklingar væru líklegri til að gera árásir.

Meðal fjölmiðla sem hafa tekið þessa ákvörðun eru blaðið Le Monde, sjónvarpsstöðin BFMTV og blaðið La Croix. Þar að auki hefur útvarpsstöðin Europe 1 ákveðið að hætta að nefna slíka menn á nafn.

„Við tókum eftir því eftir árásina í Nice að okkur þótti mjög óþægilegt að birta myndir af árásarmanninum,“ segir Jerome Fenoglio, ritstjóri Le Monde, í samtali við AFP fréttaveituna. Myndirnar sem um ræðir voru af Mohamed Lahouaiej Bouhlel þar sem hann var að dansa og spennan vöðva sína og voru þær í mikilli dreifingu á samfélagsmiðlum.

„Þetta snýst ekki um að fela staðreyndir, eða hvaðan þessir morðingjar koma,“ sagði Fenoglio og sagði að Le Monde myndi áfram birta nöfn manna.

BFMTV varð fyrir mikilli gagnrýni þegar þeir tóku viðtal við Ahmedy Coulibaly í janúar í fyrra þegar hann tók fólk í gíslingu í matvöruverslun gyðinga. Fjórir létu lífið. Ritstjóri fréttastofu þeirra segir þá hafa velt þessu lengi fyrir sér og að nýjustu árásirnar hafi flýtt ákvörðun þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×