Innlent

Hætti við að selja miða vegna skítkasts: „Búið að vera að drulla yfir mann“

Birgir Olgeirsson skrifar
Íslendingar hafa fjölmennt á leiki íslenska karlaliðsins á EM.
Íslendingar hafa fjölmennt á leiki íslenska karlaliðsins á EM. Vísir/EPa
„Það er bara fólk er búið að vera að drulla yfir mann. Ég var fljót að taka þessa auglýsingu út aftur,“ segir Eva Dís Björgvinsdóttir en hún hefur fengið yfir sig mikið skítkast fyrir að reyna að selja tvo miða á leik Íslands gegn Englandi í sextán liða úrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu í Nice í Frakklandi á mánudag.

Uppselt er á leikinn en um þrjú þúsund Íslendingar verða á leiknum. Knattspyrnusamband Íslands fékk sjötíu aukamiða í dag sem seldust upp augabragði og eftirspurnin er því mikil.

Eva Dís og maðurinn hennar keyptu fjóra miða á leikinn, tveir þeirra voru ætlaðir félaga mannsins hennar en sá hætti við. Eva Dís auglýsti því miðana tvo til sölu á sölusíðunni Brask og brall á Facebook. Hún setti ekkert verð á miðana en óskaði eftir tilboðum í einkaskilaboðum. Tilboðunum streymdi inn og til að mynda eitt þar sem hundrað þúsund krónur voru boðnar í miðana tvo.

Ljóst er að mikil eftirspurn er eftir miðum og munu margir sitja eftir með sárt ennið.Vísir/EPA
Facebook-vinur ekki svo mikill vinur

Facebook-vinur Evu Dísar setti sig í samband við hana og bar sig fremur illa að hennar sögn. Hann hafði mætt á alla leiki íslenska liðsins í riðlakeppninni og sárvantaði miða. Hann bauð 75.000 krónur í miðana tvo og spurði hvort hún vildi ekki fremur selja honum en einhverjum öðrum. Eva Dís bauð honum miðana á 80.000 krónur. 

„Ég segi ekki nei við slíkum tilboðum enda að kaupa rándýrt flug út á leikinn. Ég sagði því við hann að miðarnir yrðu hans fyrir 80.000 krónur í ljósi þess að búið var að bjóða 100.000 krónur. Þá fékk ég bara djöfulsins skítkast frá honum og við maðurinn minn vorum bara í sjokki yfir þessu,“ segir Eva Dís. 

Þau ákváðu því að reyna ekki að selja miðana heldur höfðu þau samband við félaga mannsins hennar sem býr í Svíþjóð og buðu honum miðana tvo á kostnaðarvirði. Sá þáði það boð og eru þau því á leið út til Nice í góðum félagsskap. Kostnaðarverð miðanna er um 55 evrur, eða sem nemur 7.500 íslenskar krónur miðað við gengi dagsins í dag. 

Eva Dís sagði fyrst frá þessu í Facebook-hópnum Ferðagrúppa fyrir EM 2016 þar sem eru einstaklingar sem ætluðu til Frakklands að fylgjast með Evrópumótinu. Vísir sagði frá því fyrr í dag að nokkrir hefðu lýst því yfir á síðunni að þeir ættu vart orð yfir því fólki sem væri að reyna að græða á því að endurselja miða.

Sjá einng: Öskuill yfir Íslendingum með „græðgislegan peningaglampa í augunum“

„Verið að drulla yfir fólk fyrir að koma út á völlinn“

Eva Dís segist hafa orðið vör við þá umræðu en tekur fram að hún auglýsti miðann aðeins til sölu og setti ekki upp verð, tilboðin í miðana hafi hins vegar verið há. Þá segist hún einnig hafa tekið eftir umræðu á síðunni þar sem verið sé að setja út á þá sem hafa ekki mætt á leiki íslenska liðsins í riðlakeppninni en ætli að gera það núna þegar það er komið í sextán liða úrslit.

„Ég hefði alveg verið til í að fara út strax á fyrsta leik en ég er bara með þrjú börn og í vinnu og það er verið að drulla yfir fólk fyrir að koma út leikinn sem hefur ekki verið á hinum leikjunum. Þetta er orðið svolítið mikið rugl. Þetta er í fyrsta skiptið sem e´g fer út á svona leik og maður er hálf hissa á þessu,“ segir Eva Dís. Hún á þó ekki von á öðru en að ferðin verði hin besta og hlakkar mikið til leiksins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×